Hagsmunasamtök heimilanna hyggjast efna til fjöldafundar við alþingishúsið við Austurvöll 1. október nk. þar sem krafist verður aðgerða í þágu heimila. Formaður samtakanna segir að nú þegar samstarfi ríkisstjórnarinnar og AGS sé lokið sé beðið eftir því hvort stjórnvöld gangi lengra í þágu heimila.
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir samtökin munu afhenda ríkisstjórninni undirskriftalista hinn 1. október nk. þar sem krafist er aðgerða í þágu heimila. Hún segir aðgerðir stjórnvalda í þágu heimilanna „afskaplega rýrar“.
„Í fullri einlægni í samstarfi“
Tímasetningin vekur athygli enda boðaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra samstarf við samtökin þegar hún ræddi stöðu þjóðmála við mbl.is mánudaginn 4. október í fyrra.
Sagði forsætisráðherra þá orðrétt:
„[V]ið erum í fullri einlægni í samstarfi um skuldavandann með þessum aðilum sem að þessu borði hafa komið, sem eru Hagsmunasamtök heimilanna, sem eru lífeyrissjóðirnir, sem eru bankarnir og Íbúðalánasjóður,“ sagði Jóhanna og vísaði í sama viðtali alfarið á bug þeirri gagnrýni að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra væri eini fulltrúi stjórnarinnar sem léti sig skuldavanda heimilanna varða.
Nú, tæpu ári síðar, bera Hagsmunasamtök heimilanna brigður á þá fullyrðingu Jóhönnu Sigurðardóttur að heimilin hafi fengið 144 milljarða króna afskriftir, líkt og fram kom í framsöguræðu forsætisráðherra um stöðu efnahagsmála á þingi síðasta föstudag.
„Gagnrýnislaus“ framsetning
Andrea Jóhanna gagnrýnir framsetningu forsætisráðherra.
„Það er vissulega forvitnilegt að forsætisráðherra noti tölur Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) gagnrýnislaust í ræðu sinni á Alþingi. Nú hefur komið gagnrýni frá okkur á það hvernig tölurnar voru settar fram af SFF í vikunni. Meirihluti upphæðarinnar er hvorki niðurfærsla, afskrift né lækkun eins og talað er um og á ekki heima á sama blaði og tölur fyrir hinar raunverulegu aðgerðir sem snúa að raunverulegum afskriftum.
Bróðurparturinn, eða 120 milljarðar af þeirri tölu sem forsætisráðherra talar um í ræðu sinni, á alls ekki að vera til umræðu hjá henni því þar er um að ræða leiðréttingu á eignabókhaldi bankanna sem var rangfært vegna þess að þeir frömdu lögbrot í lánastarfsemi árum saman.
Hagsmunasamtök heimilanna telja reyndar að þar eigi eftir að ganga mun lengra, þegar álit Eftirlitsstofnunar EFTA verður birt, því afturvirk lagasetning og leyfisútgáfa Alþingis að hunsa fullnaðargildi kvittana og leyfi fyrir nýju bankana til að innheimta vexti á tímabili sem þeir áttu ekki einu sinni kröfurnar hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlileg.
Aðgerðir í þágu heimilanna eru því afskaplega rýrar og enn er einblínt á vandann án þess að skoða hann út frá jafnræðissjónarmiði. Staðreyndin er sú að öll heimili urðu fyrir tjóni og enn hefur ekki verið gengið nægilega langt í þeim efnum að leiðrétta það tjón fyrir alla.
Í ljósi þess að AGS hefur nú sett stjórnartaumana í hendur ríkisstjórnarinnar á nýjan leik verður forvitnilegt að sjá hvort ríkisstjórnin tekur við sér og gengur lengra í þessum efnum - það mun vissulega auka hagvöxt og koma landinu út úr kreppunni mun hraðar en ella. Hagsmunasamtök heimilanna telja að enn eigi eftir að leiðrétta allar þær álögur á lán heimilanna sem eru umfram 4% efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Um það snýst undirskriftasöfnun samtakanna á heimilin.is þar sem þess er að auki krafist að verðtrygging verði afnumin.
Undirskriftasöfnunin verður afhent hinn 1. október, þegar nýtt þing kemur saman, og ætlast samtökin til þess að þeir landsmenn sem styðja kröfuna mæti á stefnumót við stjórnvöld á Austurvelli þann dag. Í framhaldinu er ætlast til þess að þetta verði fyrsta verkefni þingsins í október og verkinu verði lokið fyrir áramótin - hafi það ekki gengið eftir verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um þessar réttlætiskröfur,“ segir Andrea Jóhanna.