Margrét Tryggvadóttir alþingismaður segir dæmi um að fólk hafi farið tvisvar í gegnum 110% leiðina. Ástæðan sé sú að lánin hafi hækkað svo mikið vegna verðbólgunnar að hún hafi étið upp niðurfellingu sem kom út úr fyrri niðurfærslunni.
„Ég þekki konu sem er að fara í annað sinn í gegnum 110%-leiðina því að lánin halda áfram að hækka þrátt fyrir að greitt sé af þeim eftir áætlun.
Forsenda fyrir alvöruendurreisn efnahags- og atvinnulífsins er að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja af sanngirni. Eins og framkvæmdin er nú er þeim refsað sem sýndu ráðdeild og útsjónarsemi, lögðu sparnað sinn í heimilið. Þeir sem fóru varlega uppfylla ekki skilyrði 110%-leiðarinnar. Þeir sem tóku 100% lán og áttu aldrei krónu í húsnæði sínu fá niðurfellingu skulda. Þetta fyrirkomulag er fáránlegt. Hvaða skilaboð eru stjórnvöld að senda með því að refsa fyrir ráðdeild?“ spyr Margrét í pistli á vefsíðu sinni.