Landsþing Landssambands framsóknarkvenna samþykkti ályktun um helgina þar sem lýst er heils hugar stuðningi við ályktun Framsóknarflokksins um að Íslendingar skuli áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins.
Í ályktunni er lýst stuðningi við ályktun Framsóknarflokksins þar sem segir að „Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. ... Þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu.“
Framsóknarkonur samþykktu einnig ályktun þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands „að beita sér af öllu afli á komandi haustþingi fyrir raunverulegri leiðréttingu á skuldavanda heimila og fyrirtækja. LFK skorar á stjórnvöld að fella niður verðtryggingu lána. Íslenska þjóðin þarf tafarlausar lausnir í efnahags- og atvinnumálum“.
Þá var í ályktun lýst þungum áhyggjum af brottflutningi fólks frá landinu sem oft á tíðum sé með sérhæfða og góða menntun.