Hrunið það besta sem gat gerst á Íslandi

Gyrðir ræðir við erlendan blaðamann eftir að tilkynnt var í …
Gyrðir ræðir við erlendan blaðamann eftir að tilkynnt var í apríl, að hann hlyti bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár. mbl.is/Einar Falur

Gyrðir Elíasson rithöfundur segir í viðtali við danska blaðið Politiken að efnahagshrunið árið 2008 sé það besta sem gat gerst á Íslandi því þá hafi landsmenn misst trú á fjármálagreifana. Listir hafi þótt skipta máli aftur og fólk snúið sér að því að huga að raunverulegum verðmætum á nýjan leik. Því miður séu reyndar teikn á lofti um að fjárglæframennirnir vilji snúa sér að fyrri iðju á ný en hann vonist til þess að þeim takist það ekki. Vissulega skorti fá á Íslandi og vert sé að hafa í huga að mannskepnan sé ætíð veik fyrir skjótfengnum gróða.

Gyrðir hlýtur sem kunnugt er bókmennaverðlaun Norðurlandaráðs í ár og tekur nú þátt í bókmenntahátíð í Árósum. Verðlaunabókin, Milli trjánna, kom nýlega út í Danmörku og hefur verið afar vel tekið.

Politiken hefur eftir Gyrði að hann hafi ekki átt von á því að hreppa verðlaunin. Blaðið segir hann þó vitaskuld afar glaðan, og blaðamaður tekur þannig til orða að það sé ekki síst vegna þess að hann sé þar með kominn á bekk með William Heinesen, uppáhaldsrithöfundi sínum á yngri árum. Færeyingurinn hlaut verðlaunin árið 1965. Gyrðir gæti hins vegar gjarnan hugsað sér að vera án ýmiss þess umstangs sem nafnbótinni fylgi.


Vonaði að síminn hringdi ekki

Þegar tilkynnt var í vor hver hlyti verðlaunin að þessu sinni hugðist Gyrðir eyða deginum heima hjá sér við skriftir. „Ég vonaði, satt að segja, að síminn myndi ekki hringja. Ég var þess fullviss að Beate Grimsrud yrði fyrir valinu; allir töldu það. Ég vissi líka að því fylgdi mikil vinna að hljóta verðlaunin. Ég þyrfti að gera ýmislegt annað en að skrifa. Jafnvel í heilt ár! Mér fellur það best af öllu að sitja og skrifa.“

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent 2. nóvember í Kaupmannahöfn.

Viðtalið við Gyrði í Politiken

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert