Erlend fjárfesting á Íslandi hefur verið lítil í gegnum árin, en hún hefur haft veruleg efnahagsleg áhrif í sjávarútvegi og stóriðju. Þetta segir Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði. Hann segir að á 19. öld hafi menn almennt verið frekar jákvæðir gagnvart erlendri fjárfestingu, en síðar hafi menn farið að taka afstöðu til erlendrar fjárfestingar út frá spurningu um þjóðhollustu.
„Það hafa ekki verið miklar erlendar fjárfestingar á Íslandi, en það hefur hins vegar verið talsvert mikið rætt um erlendar fjárfestingar í gegnum tíðina,“ segir Guðmundur.
Miklar umræður urðu um erlendar fjárfestingar í byrjun 20. aldar þegar Einar Benediktsson, skáld og kaupsýslumaður, beitti sér fyrir virkjun fossa á Suðurlandi en hann hafði fengið öfluga erlenda fjárfesta til liðs við sig. Ekkert varð úr framkvæmdum.
Guðmundur segir að mikil erlend fjárfesting hafi komið inn í landið með dvöl breska og síðar bandaríska herliðsins hér á landi. Fjárfestingar einstaklinga hér á landi hafi hins vegar ekki verið miklar.
Guðmundur segir að miklar breytingar hafi orðið í atvinnumálum Íslands í lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar og þar hafi erlendir aðilar komið að málum. Togaraútgerð hafi að nokkru leyti hafist á Íslandi vegna fjárfestinga útlendinga. Íslendingar hafi síðan alfarið tekið þessa útgerð í sínar hendur án þess að fjárfestingar útlendinga í útgerð hafi verið bannaðar sérstaklega.
Guðmundur segir að seint á 19. öld hafi verið hér erlend fjárfesting í hvalveiðum, síldveiðum og togaraútgerð. Erlend fjárfesting í hvalveiðum og síldveiðum hafi verið áberandi, enda staðbundin. Hún hafi skipt miklu máli fyrir staði eins og Seyðisfjörð þar sem hún hafði mjög mikið að segja.
Guðmundur segir að á þeim tíma hafi menn ekki óttast erlenda fjárfestingu. „Það sem menn eru að óttast eru fyrst og fremst auðlindirnar. Menn óttast að auðlindirnar lendi í höndum útlendinga. Þetta kom fram í Fossamálinu. En í útgerð á þessum tíma kom ekki annað fram en að menn teldu að auðlindir í hafinu væru óendanlegar. Síðar breytist þetta.“
Guðmundur segir að um miðja 19. öld hafi orðið talsverðar deilur um fjárfestingar Frakka á Íslandi. Jóns Sigurðsson forseti hafi verið jákvæður gagnvart þessum fjárfestingum. „Hann taldi þetta vera mjög jákvætt skref. Íslendingar þyrftu að fá kunnáttu inn í landið og þekkingu á því hvernig ætti að vinna fiskinn. Þetta sýnir kannski hvernig viðhorfin hafa breyst í gegnum tímann. Það er frekar seint sem menn fara að líta á það sem þjóðhollustu að vera á móti erlendri fjárfestingu. Á kaldastríðsárunum voru slík viðhorf mjög áberandi.“