Lúðvík Geirsson hefur ákveðið að taka sæti á Alþingi fyrir Samfylkinguna á morgun. Hann tekur við af Þórunni Sveinbjarnardóttur sem sagði af sér þingsæti í síðustu viku.
Lúðvík var ráðinn í tímabundið verkefni við að fylgja eftir yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríkinu til sveitarfélaganna. Lúðvík sagðist ekki hafa viljað skilja við þau mál í uppnámi og því hefði hann þurft að hugsa sig aðeins um eftir að Þórunn tilkynnti óvænt um afsögn sína. Hann sagðist fá svigrúm til að klára tiltekin verkefni sem tengjast yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Það væri verið að taka ákvarðanir um fjárveitingar vegna ársins 2012 og eins væri verið að vinna úr húsnæðismálum sem tengjast yfirfærslunni.
Ekkert liggur fyrir um hvaða þingnefndum Lúðvík kemur til með að starfa í. Um það verður ekki tekin ákvörðun fyrr en kosið verður í nefndir að nýju 1. október.
Lúðvík var fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi.