„Því verr sem virkjunin gengur, því betra fyrir bankann“

Hálslón við Kárahnjúkavirkjun. Myndin er tekin síðsumars 2007.
Hálslón við Kárahnjúkavirkjun. Myndin er tekin síðsumars 2007. mbl.is/Rax

Ómar Ragnarsson segir frá því á bloggsíðu sinni að í „glæsiferð“ Landsbankans á Kárahnjúkasvæðið síðsumars 2007, þar sem hann var leiðsögumaður, hafi hann lýst áhyggjum sínum við annan bankastjóra bankans, af því að virkjunin misheppnaðist. Sá - sem Ómar nafngreinir ekki - hafi ekki sagst hafa neinar áhyggjur af þessu og ástæðuna kveðst Ómar hafa fengið hjá öðrum starfsmanni bankans: „Því verr sem virkjunin gengur, því betra fyrir bankann.“

Ómar segir svo frá:

„Mér brá í fyrstu og undraðist svarið þangað til ég áttaði mig á því að bankastjórarnir vissu að verkið var ríkistryggt og að þjóðin myndi borga brúsann, hvernig sem færi, en bankinn fengi hins vegar allt sitt og meira að segja með ofurvöxtum ef hann þyrfti að útvega björgunarfjármagn.“

Þetta segist Ómar hafa fengið staðfest síðar þegar hann komst á snoðir um „leynilegan neyðar-símafund, sem haldinn var einn morguninn þar sem voru í símatorgi fulltrúar Landsvirkjunar, Landsbankans og þeirrar stofnunar ríkisins, sem sér um lánamál. Viðfangsefnið var að redda sjö milljarða króna láni til Landsvirkjunar fyrir klukkan tíu. Sem sagt: Klukkustundar gálgafrestur.

Þetta var því aðeins hægt að Landsbankinn lánaði þessa upphæð á ofurvöxtum, sem lánasýsla ríkisins kyngdi, en vextirnir voru ofan við leyfileg mörk, sem giltu um þau efni. 

Þetta tókst og auðvitað græddi bankinn í þessu tilfelli á vandræðunum vegna erfiðleikanna við virkjanaframkvæmdirnar.“

Bloggsíða Ómars Ragnarssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert