„Það er ekkert aldurstakmark á þetta frekar en á reiðhjól. Það sem við höfum mestar áhyggjur af er að það eru börn að keyra þessi tæki og meira að segja brjótandi þær reglur sem almennt gilda um hjólreiðar.“
Þetta segir Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, í Morgunblaðinu í dag um rafmagnsvespur, sem njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi. Þær flokkast, þrátt fyrir að vera vél- eða rafknúin hjól, sem ein tegund reiðhjóla og gilda um þau flestar sömu reglur og reiðhjól.
Einar segir að í innanríkisráðuneytinu sé verið að skoða hvort ekki þurfi að greina þessi tæki frekar í sundur og þá með hvaða hætti. Allt er það gert fyrst og fremst til að tryggja öryggi vegfarenda.