Hallur Már
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að enginn innbrotsþjófur sé svo ómerkilegur að hann sé ekki yfirheyrður um þær sakir sem á hann eru bornar og honum gefið tækifæri til tjá sig um þær.
„Það hefur ekki verið gert í mínu máli og þó er þetta landsdómsmál, æðsti réttur þjóðarinnar," sagði Geir við mbl Sjónvarp.
Málflutningur vegna frávísunarkröfu í máli Geirs fór fram fyrir landsdómi í dag. Andri Árnason, verjandi Geirs, lagði fram kröfur um frávísun á þeim forsendum að rannsókn málsins væri annmörkum háð, ákæruatriðin væru óljós og ákæran án rökstuðnings.
Þá sé saksóknari Alþingis talinn vanhæfur til að rannsaka og fara með málið. Reglur um Landsdóm séu óljósar og tryggi ekki réttláta málsmeðferð. Ákvörðun Alþingis um málshöfðun er talin andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrár.
Geir segir sjálfur erfitt að vera bjartsýnn undir þeim kringumstæðum sem eru uppi.