Fóru út fyrir umboð SÞ

Steingrímur J. Sigfússon svarði fyrirspurnum við upphaf þingfundar í morgun.
Steingrímur J. Sigfússon svarði fyrirspurnum við upphaf þingfundar í morgun. mbl.is/Golli

Steingrimur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á Alþingi í morgun að Vinstri-græn hefðu lagst gegn því að NATO tæki við stjórn árásanna á Líbíu og teldu að í vissum tilvikum hefði verið farið út fyrir það umboð sem eðlilegt væri miðað við ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Sigurður Kári Kristjánsson Sjálfstæðisflokki spurði Steingrím í fyrirspurnartíma hvort hann styddi ályktanir sem samþykktar voru á vettvangi flokksstofnana Vinstri-grænna. Annars vegar ályktun þingflokks VG sem hefði falið í sér harða gagnrýni á iðnaðarráðherra fyrir að setja stjórn Byggðastofnunar af og skipa nýja. Hins vegar hvort hann hefði stutt ályktun flokksráðs VG um loftárásirnar á Líbíu þar sem lagt er til að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda þess að íslensk stjórnvöld samþykktu að ráðist yrði í þessar hernaðaraðgerðir.

Sigurður Kári sagði að þessar ályktanir Vinstri-grænna væru fordæmalausar í garð samstarfsflokks í ríkisstjórn. Í þeim fælist yfirlýsing um vantraust þessara tveggja lykilstofnana VG á hendur utanríkis- og iðnaðarráðherra.

Steingrímur sagði að skiptar skoðanir hefðu verið á breytingunum á Byggðastofnun og það hefði því ekki átt að koma á óvart.

„Varðandi loftárásirnar á Líbíu er ljóst að við vorum ekki fylgjandi því og lögðumst gegn því að NATO tæki þar við stjórn mála og teljum að í vissum tilvikum hafi menn farið út fyrir það umboð sem eðlilegt sé miðað við ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega þegar kemur að loftárásum á borgaraleg skotmörk. Þarna er verið að lýsa ákveðinni afstöðu til hluta sem á ekki að þurfa að koma neinum á óvart og ég held að það sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af stjórnarsamstarfinu í þessum efnum,“ sagði Steingrímur.

Pörupiltar og strákar

Sigurður Kári kom aftur í ræðustól og sagðist velta því fyrir sér hvort það væri starfhæf ríkistjórn í landinu. Það sætti miklum tíðindum að fjármálaráðherra tæki undir efni þessara tveggja yfirlýsinga. Þar með að utanríkisráðherra yrði látinn sæta ábyrgð á Alþingi fyrir sínar embættisfærslur. Ekki væri hægt að skilja svör Steingríms öðruvísi en svo.

Steingrímur sagði að ráðherrarnir sem um ræddi nytu fyllsta trausts í stjórnarsamstarfinu. „Það er prýðilega starfhæf ríkisstjórn í landinu og það stendur ekki til að láta einhverja pörupilta og stráka komast upp á milli stjórnarflokkanna,“ sagði Steingrímur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert