Málflutningi um frávísun máls Alþingis gegn Geir H. Haarde lauk rétt fyrir klukkan tólf á hádegi með orðunum „Málið er til úrskurðar, dómþingi er slitið“. Úrskurðar um hvort málinu verður vísað frá eða haldið áfram með það, er að vænta að þremur vikum liðnum.
Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, sagði að fátt hefði komið sér á óvart í málflutningi verjanda Geirs og sagðist ekkert mat geta lagt á það hvort líkur væru á frávísun.
Geir H. Haarde sagði að hann teldi málflutninginn hafa gengið með ágætum. „Ég er með mjög reyndan og flinkan verjanda. En svo bíður maður eftir því hvaða niðurstöðu rétturinn kemst að og það er hvorki mitt né annarra að segja til um það.“