Háir skattar eru nauðsynlegir á tímum mikils fjárlagahalla og efnafólk telur minna eftir sér að borga meira til samfélagsins en ýmsir þingmenn vilja vera láta. Þetta kom fram í þingræðu Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, í umræðum um skattamál í morgun.
„Það er auðvitað fullkomið óraunsæi að Ísland, í þeirri gríðarlega erfiðu stöðu sem við höfum verið í efnahagslega, eigi val um það að hafa hér í landinu bara svona almennt lága skatta. Það er nú því miður ekki. Hér þarf að innheimta skatta til þess að rétta af hinn gríðarlega halla á ríkissjóði.
Og ég held raunar að þeir sem vel standa - þeir sem að koma út með til að mynda miklar eignir úr hruninu telji ekki jafn mikið eftir sér og sumir háttvirtir þingmenn vilja vera láta, að leggja sitt af mörkum á þessum erfiðu tímum,“ sagði Helgi.