Óforsvaranlegt að veita undanþágu

Fyrirhuguð kaup á Grímsstöðum á Fjöllum komu til umræðu á …
Fyrirhuguð kaup á Grímsstöðum á Fjöllum komu til umræðu á Alþingi í morgun. mbl.is/Birkir

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist telja óforsvaranlegt að veita undanþágu sem geri Huang Nubo kleift að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum.

Guðfríður Lilja spurði Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um endurskoðun á vatnalöggjöfinni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. 

Katrín sagðist taka undir það að löggjöfin frá 1998 væri ekki góð, þar sem grunnvatn hefði verið einkavætt með þeirri löggjöf illu heilli. Nú hefði náðst ágætis samstaða um að fara heldur þá leið sem farin er í vatnalögunum frá 1923. Ekki einkaeignarleið þegar kemur að eignarhaldi á vatni, heldur fremur sú leið að telja upp hvernig nýta megi vatn á viðkomandi landsvæði.

Vinda ofan af einkavæðingu vatns

Katrín sagði að endurskoðun á löggjöfinni væri formlega að hefjast. Þar yrði farið í gegnum hvernig mætti vinda ofan af þeirri einkavæðingu sem átti sér stað með lögunum sem sett voru árið 1998. Guðfríður Lilja sagði mikilvægt að styrkja með öllum ráðum þjóðareign á auðlindunum.

Hún vék að fyrirhuguðum kaupum Huang Nubo á Grímsstöðum á Hólsfjöllum. „Þessi kaup eru ólögleg og þurfa undanþágu,“ sagði hún. „Það er mín skoðun að það sé ekki forsvaranlegt, það er óforsvaranlegt að veita slíka undanþágu, meðal annars þegar fyrir liggur að þessi endurskoðun hefur ekki farið fram. Lögin eru einkavæðingareðlis og við verðum að skila sterkri almannaréttarlöggjöf áður en við veitum undanþágu til slíkra stórfelldra landakaupa og auðlindakaupa, sem núna eru hugsanlega í bígerð,“ sagði Guðfríður Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka