Ökumaður bílsins sem er talinn hafa verið í kappakstri við bíl sem valt á Hafnarfjarðarvegi kortér yfir sjö í kvöld hefur gefið sig fram við lögreglu. Hann er nú í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu. Áverkar ökumannsins í bílnum sem valt eru við fyrstu sýn ekki taldir alvarlegir að sögn læknis á bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss. Hann fær væntanlega að fara heim á morgun.
Eins og greint var frá fyrr í kvöld telur lögreglan að um kappakstur hafi verið að ræða, sem endaði með því að annar bíllinn lenti á ljósastaur og fór nokkrar veltur. Bíllinn lenti utan vegar og er gjörónýtur. Hinn ökumaðurinn stakk af en hefur nú gefið sig fram við lögreglu sem fyrr segir.
Slysið varð á Hafnafjarðarvegi, við Kópavogslæk, til norðurs. Fífuhvammsvegi var lokað á vettvangi en hann var opnaður aftur um klukkan tíu í kvöld.