Ríkisstjórnarfundir verða hljóðritaðir en hljóðritin verða ekki birt fyrr en eftir 30 ár, samkvæmt tillögu að breytingu á frumvarpi um Stjórnarráð Íslands. Stjórnarráðsmálið var samþykkt úr allsherjarnefnd Alþingis í morgun með atkvæðum fulltrúa stjórnarflokkanna auk atkvæðis Þórs Saari.
Sett var inn ákvæði um að allir ríkisstjórnarfundir skuli hljóðritaðir en hljóðritin verði ekki gerð opinber fyrr en að 30 árum liðnum. Þessi breyting mun hafa valdið því að þeir Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sem báðir greiddu atkvæði gegn frumvarpinu á fundi allsherjarnefndar á föstudaginn var studdu nú málið, samkvæmt heimildum mbl.is.
„Það er lagt til að fundir ríkisstjórnarinnar verði hljóðritaðir og að afrit af þeim hljóðupptökum verði geymt í 30 ár,“ sagði Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar.
Hann sagði að skiptar skoðanir hefðu verið um 7. grein frumvarpsins, sem fjallar um fundargerðir og upptökur. Gerð hefði verið málamiðlun sem allir fulltrúar meirihlutans og Þór Saari gætu sætt sig við.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í allsherjarnefnd greiddu atkvæði gegn frumvarpinu á fundinum í morgun.
„Okkar andstaða við málið byggist á þeirri meginbreytingu frumvarpsins að í stað þess að það sé ákveðið með lögum af Alþingi hvaða ráðuneyti eru starfandi á hverjum tíma þá á að færa það vald til ríkisstjórnarinnar sjálfrar og þá einkum forsætisráðherra.
Við teljum að með því móti sé verið að færa óeðlilega mikil völd frá löggjafarvaldinu til framkvæmdavaldsins,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í allsherjarnefnd. Hann kvaðst óttast að þessi breyting gæti leitt til meiri losarabrags í stjórnsýslunni en æskilegt væri.