„Hlutverk saksóknara er að leiða sannleikann í ljós á hlutlægan hátt. Hvernig getur hann sinnt því hlutverki sínu ef sakborningur fær ekki að svara fyrir sig?“ spurði Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde, við dómara Landsdóms í morgun, þegar tekin var fyrir krafa Andra um að málinu gegn Geir yrði vísað frá.
Hann sagðist ekki kannast við álíka vinnubrögð í neinu sakamáli. Hann sagði að yrði niðurstaðan sú að áfram yrði haldið með málið væri það grundvallarkrafa að fram færi sakamálarannsókn, annaðhvort áður en Alþingi eða saksóknari gæfi út ákæru. „Þetta er að mínu mati eina leiðin,“ sagði Andri.
„Ég tel að málið sé í sjálfheldu að þessu leyti, hugsanlega er einhver misskilningur á ferðinni,“ sagði hann.
Andri sagði að verjanda væri gert afar óhægt um vik í störfum sínum, því hann vissi ekki á hverju ákæruvaldið byggði mál sitt og fyrirsjáanlegt væri að aðalmeðferð málsins yrði bæði óljós og ómarkviss, ekki síst vegna þess að óljóst væri hvaða gildi rannsóknarskýrsla Alþingis hefði í málinu.
„Hvert er samhengi skýrslunnar og sakamálsins? Það getur aldrei stýrt góðri lukku að taka gögn hrá úr annarri rannsókn og nota þau annars staðar,“ sagði Andri.