Vill byggja nýja álmu á Litla-Hrauni

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson mbl.is/Kristinn

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ótímabært að ræða byggingu öryggis fangelsisbyggingu á öðrum stað en hún er nú starfrækt á. Telur hann rétt að byggja nýja öryggisálmu á Litla-Hrauni í stað þess að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í grein sem Björgvin skrifar á Pressuna í dag.

„Lengi hefur staðið til af hálfu fangelsisyfirvalda að byggja gæsluvarðahaldsrými og komufangelsi sem leysti af hólmi afdankað húsnæði t.d. á Skólavörðustígnum. Þessi stefnumið eru tilkomin þar sem núverandi húsnæði er úrelt. Hefur að auki verið átalið sem mannréttindabrot af alþjóðastofnunum að hýsa þar menn.

Eina ákvæðið um málið í fjárlögum er 6. greinar heimild til þess að leigja eða kaupa nýtt gæsluvarðhaldsrými og selja það gamla. Ekki orð um nýja stórbyggingu sem hýsti nýtt gæsluvarðhalds- og öryggisfangelsi. Það er stefnubreyting sem ekki hefur hlotið umræðu eða afgreiðslu á Alþingi.

Forsendan fyrir nýju fangelsi á höfuðborgarsvæðinu hefur ávallt verið sú að það sé ekki vísir að því að færa öryggisfangelsið að austan suður. Enda hagkvæmast að byggja við þá rótgrónu stofnun sem fyrir er á Eyrarbakka og er mikil sátt og samstaða um í samfélaginu eystra að hafa þar áfram og efla.

Á Litla-Hrauni hefur um áratugaskeið verið rekið öflugt fangelsi. Góð þekking og mannauður er til staðar og hefur byggst þar upp um áratugaskeið. Starfsemin gengur vel og er til fyrirmyndar. Hana á að efla og styrkja með áframhaldandi uppbyggingu.

Um þess lags uppbyggingu öryggisfangelsis hefur verið samstaða þvert á flokka. Nú má segja að nýrra beri við. Fréttir um að „ákveðið“ hafi verið af ráðherra málaflokksins, innanríkisráðherra, að nýtt fangelsi, bæði gæsluvarðhalds- og öryggisbyggbygging eigi að byggja á Hólmsheiði fyrir rúma tvo milljarða króna er til marks um það.

Þetta þarf að ræða miklu betur.

Engin stefnumörkun hefur verið kynnt því í samhliða, engir hagkvæmnisútreikningar aðrir en að styttra sé að aka á Hólmsheiðina en á Bakkann. Þá er óljóst um áætlanir um áframhaldandi uppbyggingu á Litla-Hrauni og eflingu þeirrar starfsemi. Bæði út frá hagkvæmni og faglegum forsendum.

Að byggja áfram þar sem byggt hefur verið. Þannig má spara stórfé í frumkostnað við nýtt fangelsi í 50 km. fjarlægð sem nú telst til sama svæðis í atvinnulegu og félagslegu tilliti," skrifar Björgvin.

Hann segir að á Alþingi hafi engin ákvörðun verið tekin um hvar skuli byggja nýtt fangelsi af þessu tagi heldur þvert á móti; að kaupa eða leigja nýtt rými fyrir gæsluvarðhald. Ekki nýtt öryggisfangelsi með öllu sem því tilheyrir.

„Því er það ekki svo að engin slík ákvörðun verið tekin af fjárlagavaldinu. Alþingi sjálfu. Tillaga innanríkisráðherra um bygginguna verður auðvitað metin og afgreidd af þinginu en það er langt frá því að komið sé að því. Enda skortir allt mat og forsendur til þess.

Því er þetta í besta falli ótímabær umræða um nýja öryggis fangelsisbyggingu á öðrum stað en hún er nú starfrækt á. Fagna ég fastri framgöngu bæjarstjórnar Árborgar í málinu og hvet þau til samstöðu um að áfram skuli byggt upp á Litla- Hrauni. 

Þetta er brýnt mál sem bera að ræða í sölum Alþingis. Því hef ég óskað eftir umræðu utan dagskrár á Alþingi við innanríkisráðherra um málið nú á september þinginu. Vonandi gefst færi á að fara yfir alla forsendur, faglegar og fjárhagslegar, og leiða fram að best er, hagkvæmast og faglega, að byggja nýja öryggisálmu á Litla Hrauni. Því samhliða nýtt komu- og gæsluvarðhaldsrými á höfuðborgarsvæðinu fyrir miklu minna fé en nú er lagt upp með."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka