Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að í rýniskýrslu Evrópusambandsins um landbúnað í aðildarviðræðum við Ísland, væri fallist á það með formlegum hætti, að Íslendingar noti þá samningaleið sem þeir hefðu ákveðið að fara.
„Það felst í því, að aðlaga ekki reglur, ekki lög og ekki stofnanir að Evrópusambandinu fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar fyrir liggur jáyrði. Þetta liggur fyrir þarna svart á hvítu," sagði Össur og bætti við að þingmenn Framsóknarflokksins þyrðu ekki í málefnalegar umræður um Evrópusambandið.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði fyrr í umræðu um störf þingsins sagt, fram hefði komið á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins um miðjan ágúst, að enginn vissi hvar verið væri að vinna að samningsmarkmiðum Íslands í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.
Össur sagðist vilja bera á móti því á að hann hefði vildi ekki mæta til funda við þær þingnefndir, sem óskuðu eftir því en Sigurður Ingi gagnrýndi að erfitt væri að fá fundi í nefndum þingsins um aðildarviðræðurnar.
„Það hefur enginn utanríkisráðherra komið jafnoft til fundar við utanríkismálanefnd og ég. Það hefur enginn utanríkisráðherra í sögunni óskað eftir því jafnoft og ég að fá að koma á fund utanríkismálanefndar til þess að skýra sín mál," sagði Össur.
Hann sagði að þingmenn Framsóknarflokksins ættu að einbeita sér að sínum flokki, sem einmitt vegna Evrópusambandsmálsins væri nú klofinn í rót niður, hefði misst eitt efnilegasta forustumannsefni sitt út af þessu máli og þar væri allt upp í loft.
„Ég held frekar að háttvirtir þingmenn ættu að koma til mín og leita liðsinnis við að setja niður deilur deilur um Evrópusambandið í þeirra flokki. Mér hefur tekist yfirleitt þegar koma upp deilur að setja þær niður og ég býð mig fram sem sjálfboðaliði til að hjálpa Framsóknarflokknum til að komast aftur upp á lappirnar í þessu máli," sagði Össur.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag, að ekki hefði orðið við beiðni, sem lögð var fram fyrir tveimur mánuðum um opna fundi í utanríkismálanefnd Alþingis um stöðu aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið.
Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður utanríkismálanefndar, sagði að samkomulag hefði náðst um hvernig þessum opnu fundum yrði háttað. Engin undirmál væru þar frekar en annarstaðar í samningaviðræðunum við Evrópusambandið. Það væri sama hve Ásmundur Einar segði oft í ræðustóli að það hvíldi leynd yfir aðildarviðræðunum. „Það er eitt orð yfir þær staðhæfingar og það er, að þær eru ósannar," sagði Valgerður.