Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í þætti Richards Quest á sjónvarpsstöðinni CNN í kvöld, að Alþingi hefði orðið sér til skammar með því að ákæra hann fyrir landsdómi.
Quest spurði Geir hvaða sögu það segði af lýðræðinu á Íslandi að hægt væri að draga menn fyrir dóm vegna pólitískra ákvarðana.
„Það segir ekkert um lýðræðið en margt því miður um ráðandi stjórnarmeirihluta á Íslandi um þessar mundir. Og ég verð að segja að ég fyrirverð mig að sumu leyti fyrir Alþingi þar sem ég átti sæti í rúma tvo áratugi, fyrir að hafa orðið sér til skammar með þessum hætti," sagði Geir.
Hann sagði í viðtalinu, að hrun fjármálakerfis væri aldrei sök eins manns, eins stjórnmálaleiðtoga. Hann sagðist hins vegar axla fulla pólitíska ábyrgð á því sem gerðist á Íslandi á meðan hann var í embætti. „En ég hef ekki framið neina glæpi og ekki heldur þær ríkisstjórnir sem ég sat í," sagði Geir.
Geir sagði að málaferlin gegn honum væru í raun pólitísk réttarhöld í búningi sakamálaréttarhalda sem gamlir pólitískir andstæðingar hans hefðu haft forgöngu um.
Viðtal Richards Quests við Geir H. Haarde