Þuríður Backman, formaður þingflokks VG, sagði á Alþingi í dag að enginn bilbugur væri á þingmönnum flokksins um að sitja í ríkisstjórn með Samfylkingunni út þetta kjörtímabil.
„Við höfum haft úthald þessi tvö erfiðu ár og ég tel að við höfum öll úthald til að halda áfram nú þegar mestu erfiðleikarnir eru að baki.“
Þuríður var að svara Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem vísaði til ummæla Þórunnar Sveinbjarnardóttur í Kastljósi Sjónvarpsins. Sagði Þórunn þar að ákveðnir þingmenn stjórnarflokkanna þyrftu meira úthald. Einnig þyrfti að stokka upp í ríkisstjórninni á miðju kjörtímabili.
Þuríður sagði að uppstokkun í ríkisstjórninni hefði ekki komið til tals í þingflokknum.