Heimilt að fjölga aðstoðarmönnum

Hver ráðherra getur í dag ráðið sér einn aðstoðarmann.
Hver ráðherra getur í dag ráðið sér einn aðstoðarmann. mbl.is/Árni Sæberg.

Meirihluti allsherjarnefndar leggur til í breytingartillögum við stjórnarráðsfrumvarpið að ráðherrum verði heimilt að hafa tvo aðstoðarmenn og jafnframt verði heimilt samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur.

Í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar kemur fram að ákvæði frumvarpsins um aðstoðarmenn og ráðgjafa ráðherra séu ekki fullnægjandi. Telur meirihlutinn brýnt „að skapað verði aukið svigrúm fyrir ráðherra til að ráða til sín pólitíska aðstoðarmenn þannig að þeir fái með eðlilegum hætti sinnt pólitískri stefnumótun innan ráðuneyta sinna,“ segir í nefndarálitinu.

Í rökstuðningi meirihluta nefndarinnar með tillögu um breytingu á fjölda aðstoðarmanna segir að með þessu móti megi tryggja eðlilega skiptingu á fjölda aðstoðarmanna m.a. með hliðsjón af stærð ráðuneyta og fjölda málaflokka sem undir þau heyra.

„Þá verður auk þess unnt að bregðast við auknu álagi í einstökum ráðuneytum með því að nýta þessa heimild. Meiri hlutinn leggur til að hið nýja aðstoðarmannakerfi komist til framkvæmda þegar við gildistöku laganna enda brýnt nú sem fyrr að efla hina pólitísku skrifstofu ráðherra,“ segir þar ennfremur.

Fram kemur að áliti meirihluta allsherjarnefndar að óheppilegt sé að aðstoðarmenn ráðherra semji beint um kjör sín við ráðherra. Leggur meiri hlutinn því jafnframt til að ákvörðunarvald um launakjör aðstoðarmanna verði felld undir kjararáð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert