Jörð hefur skolfið í kringum Kötlu undanfarna daga og virðist lítið lát á skjálftavirkni. Ein skjálftahrinan reið yfir nú í hádeginu og stóð í um hálftíma. Skjálftarnir eru þó flestir litlir eða um eða kringum á 1 stig en sá stærsti þó um 1,8 stig að sögn Hjörleifs Sveinbjörnssonar, jarðfræðings hjá Veðurstofunni. og voru um 20 mínútur frá síðasta skjálfta þegar mbl.is ræddi við hann.
Hann segir Kötlu óútreiknanlega þegar kemur að því að spá fyrir um gos en skjálftavirkni hafi aukist gríðarlega eftir hlaupið í Múlakvísl í sumar. Í ár hafi mælst um 800 skjálftar á móti 300 yfir allt síðasta ár. Meiri virkni sé nú innan öskjunnar en alla jafna. Það þurfi þó ekki að þýða að það fari að gjósa.
Sé virknin nú borin saman við hlaup í Múlakvísl árið 1955 þá hafi virknin á þeim tíma verið vegna kvikuinnskots sem hafi valdið meiri jarðhita, brætt af sér ís og valdið hlaupinu. Þá hafi Katla ekki gosið. Innskot gæti verið að valda þessum breytingum nú en það sé þó erfitt að segja nákvæmlega hvað sé að gerast.
Hjörleifur segir vel fylgst með Kötlu og búið sé að koma fyrir fleiri skjálftamælum og búnaði til að fylgjast með á svæðinu. Aukin skjálftavirkni þurfi ekki að vera ávísun á eldgos, þar þurfi fleiri breytur að spila saman.
AP-fréttastofan hefur eftir Páli Einarssyni við Háskóla Íslands að vel sé fylgst með Kötlu, þar sem hún sé það eldfjall sem fólk óttist helst. Hins vegar sé eðlilegt að skjálftavirkni mælist við Kötlu. Það sé þó óvenjulegt að sjá hrinur smærri jarðskjálfta með allt niður í tíu mínútna millibili.