Ákvæði um fjölda ráðherra fellt brott

Frumvarp forsætisráðherra um Stjórnarráð Íslands var lagt fram á Alþingi …
Frumvarp forsætisráðherra um Stjórnarráð Íslands var lagt fram á Alþingi 11. apríl sl. mbl.is / Hjörtur

Meirihluti allsherjarnefndar þingsins leggur til að fellt verði á brott ákvæði í frumvarpinu um Stjórnarráð Íslands, sem kveður á um að ráðuneyti í stjórnarráðinu skuli ekki vera fleiri en tíu og að hvert ráðuneyti skuli lagt óskipt til eins og sama ráðherra.

Í rökstuðningi meirihluta allsherjarnefndar segir að ákvæðið, eins og það var lagt fyrir Alþingi, sé á skjön við valdheimildir stjórnvalda skv. 15. gr. stjórnarskrárinnar „enda takmarkar það í reynd valdheimildir ríkisstjórnar til að ákveða fjölda ráðherra. Að mati meirihlutans er brýnt að vald og ábyrgð fari saman að þessu leyti. Ríkisstjórn sem ekki hefur vald til að skipuleggja Stjórnarráð Íslands þannig að það fái sem best valdið þeim verkefnum sem Alþingi hefur falið því getur þannig heldur ekki borið ábyrgð á því ef skipulagslegir annmarkar valda því að misbrestur verður á því að lög eða stefnumótun frá Alþingi fái ekki framgang,“ segir í nefndarálitinu.

Er jafnframt vísað til þess að mikilvægt sé í þessu sambandi að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Ráðuneyti skilgreint sem skrifstofur ráðherra

Nefndaráliti og breytingartillögum meirihluta allsherjarnefndar var dreift á þingfundi í dag. Meirihluti nefndarinnar leggur til ýmsar breytingar á ákvæðum frumvarpsins.

Er m.a. lagt til að í frumvarpinu verði sérstaklega kveðið á um að Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti og að hugtakið ráðuneyti verði skilgreint sem skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdavaldsins á sínu málefnasviði.

Fram kemur í nefndarálitinu að ítarlega var fjallað um ákvæði um ríkisstjórnarfundi og skráningu upplýsinga á þeim fundum. Leggur nefndarmeirihlutinn m.a. til þá breytingu á frumvarpinu, að á ríkisstjórnarfundum skuli einnig skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess „og þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar,“ segir í áliti meirihluta allsherjarnefndar.

Fundargerðir birtar innan árs

„Þá telur meiri hlutinn einnig rétt að leggja til að kveðið verði á um að fundargerðir verði birtar innan árs en sú breyting var lögð til við meðferð nefndarinnar á frumvarpi til upplýsingalaga [...]. Samhliða þeirri breytingu telur nefndin rétt að leggja til að haldin verði sérstök trúnaðarmálabók þar sem bóka skuli atriði sem falla undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna, sbr. 9. og 10. gr. upplýsingalaga. Meiri hlutinn tekur fram að í nýsamþykktum lögum um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis er verið að rýmka aðgang að fundum fastanefnda og kveða á um að fundargerðir fastanefnda verði birtar á vef þingsins. Samhliða því er kveðið á um sérstaka trúnaðarmálabók sem hver nefnd skal halda um þau mál sem bóka skal sem trúnaðarmál,“ segir í nefndarálitinu.

Loks leggur meiri hlutinn til þá meginbreytingu að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir og afrit af þeim geymt í vörslu Þjóðskjalasafns og að hljóðritanirnar skuli gerðar opinberar að 30 árum liðnum frá fundinum.

„Meiri hlutinn telur að með þessum breytingum sé verið að bregðast við ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og tillögum í skýrslu og ályktun þingmannanefndar Alþingis og þeirri staðreynd að stjórnvöld sækja umboð sitt til þjóðarinnar og starfa í hennar þágu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert