Munu koma samningi í þjóðaratkvæði

Ríkisstjórnin ræddi um aðildarviðræður við Evrópusambandið á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í kjölfar orðsendingar sem barst frá ráðherranefnd ESB virðast viðræðurnar þó vera komnar í sjálfheldu þar sem íslensk stjórnvöld þurfa að sýna fram á skýra áætlun um hvernig laga eigi regluverk íslensks landbúnaðar að því evrópska áður en lengra er haldið í viðræðunum.

Í bréfi Jans Tombianskis, sem fer með pólitíska forystu sambandsins, er skýrt tekið fram að Íslendingar séu ekki nægilega undirbúnir fyrir viðræðurnar sem er í samræmi við það sem heyrst hefur úr röðum íslensku sendinefndarinnar.

Fyrir fundinn í morgun sagði Árni Páll Árnason að ríkisstjórnin væri staðráðin í að klára aðildarviðræður og koma samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Össur Skarphéðinsson var ekki tilbúinn til að tjá sig um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert