Fréttaskýring: Þiggja bætur frekar en láglaunastörfin

mbl.is/Ómar

Lang­flest lausra starfa á lista vinnumiðlun­ar Vinnu­mála­stofn­un­ar eru störf fyr­ir ófag­lærða, eða um 40%, og víða geng­ur erfiðlega að ráða í þessi störf þrátt fyr­ir ríf­lega 6% at­vinnu­leysi.

Í gær voru 287 laus störf í 141 aug­lýs­ingu hjá Vinnu­mála­stofn­un en í lok júlí sl. voru störf­in tæp­lega 300. Þar af 116 fyr­ir ófag­lærða. Nán­ari skipt­ing þess­ara starfa eft­ir stétt­um sést hér til hliðar.

Á starfa­torgi.is, þar sem hið op­in­bera aug­lýs­ir eft­ir starfs­kröft­um, eru um 85% allra aug­lýs­inga vegna starfa sem krefjast ein­hverr­ar sérþekk­ing­ar og/​eða mennt­un­ar en eins og kom fram í Morg­un­blaðinu í gær eru 75 aug­lýs­ing­ar þar inni um mun fleiri störf. Álíka marg­ar aug­lýs­ing­ar eru einnig birt­ar á vef Reykja­vík­ur­borg­ar, stærsta vinnustaðar lands­ins, en þar eru þetta aðallega umönn­un­ar­störf í skól­um, á frí­stunda­heim­il­um og hjúkr­un­ar­heim­il­um.

Erfiðlega hef­ur gengið að fá sér­fræðimenntað fólk til starfa í sum­um grein­um, eins og lækna, en einnig hef­ur hjúkr­un­ar­heim­il­um mörg­um hverj­um gengið illa að ráða til sín hjúkr­un­ar­fræðinga og sjúkra­liða. Þetta staðfesta bæði Pét­ur Magnús­son, for­stjóri Hrafn­istu, og Ingi­björg Ólafs­dótt­ir, for­stöðumaður Drop­laug­arstaða. Pét­ur seg­ir að eft­ir banka­hrunið hafi gengið bet­ur að ráða í störf sem ekki krefjast fag­mennt­un­ar og Ingi­björg von­ast til að geta ráðið í þau fimm stöðugildi sem upp á vant­ar á næstu vik­um. Fyrstu vik­ur í sept­em­ber séu alltaf erfiðast­ar, þegar skóla­fólkið er hætt og fast­ir starfs­menn enn í or­lofi, sum­ir hverj­ir. Ingi­björg seg­ir það þó ganga bet­ur núna að fá náms­menn í hluta­störf­in.

Laun­in ekki langt frá bót­um

At­vinnu­rek­end­ur furða sig á því af hverju geng­ur treg­lega að ráða í sum störf á tím­um at­vinnu­leys­is. Fyr­ir þessu geta verið fjöl­marg­ar ástæður, allt eft­ir því um hvaða starf eða starfs­grein er að ræða, en í mörg­um til­vik­um eru það laun og vinnu­tími sem virðast ekki freista fólks. Þeir sem hafa verið lengi á at­vinnu­leys­is­skrá, og eru með allt að 250 þúsund krón­ur á mánuði í bæt­ur, hugsa sig um tvisvar áður en farið er út á vinnu­markaðinn fyr­ir störf sem gefa ekki mikið hærri tekj­ur af sér. Svört vinna hef­ur sömu­leiðis færst í vöxt sem að nokkru leyti má skýra með hækk­andi álög­um hins op­in­bera.

Mikið áhyggju­efni

Meðal þeirra vinnustaða sem jafn­an hef­ur gengið illa að fá fólk til starfa eru frí­stunda­heim­il­in í Reykja­vík. Að sögn Evu Ein­ars­dótt­ur, for­manns íþrótta- og tóm­stundaráðs, á enn eft­ir að ráða í um 40 stöður en fyrst og fremst er um 50% stöður að ræða. Þetta hef­ur þau áhrif að enn eru um 350 börn á biðlista eft­ir plássi á frí­stunda­heim­ili í og við grunn­skóla borg­ar­inn­ar. Eva von­ast til að úr ræt­ist á næstu tveim­ur vik­um en því miður sjái marg­ir sér ekki hag í að taka þessi störf, ekki síst þegar um hlutastarf er að ræða. Mik­il­væg­ara sé hins veg­ar fyr­ir fólk að fá reynslu og störf inn á starfs­fer­ils­skrána en að hafa verið á at­vinnu­leys­is­bót­um.

Eva hef­ur góða reynslu af því að starfa með at­vinnu­laus­um ung­menn­um og hún seg­ir það mikið áhyggju­efni að upp er að koma önn­ur og jafn­vel þriðja kyn­slóð fólks sem hef­ur ekki kynnst öðru en at­vinnu­leysi inn­an sinn­ar fjöl­skyldu og að hafa viður­væri sitt af bót­um.

„Auðvitað vonaðist maður til þess að þetta myndi ekki ger­ast á Íslandi en það virðist því miður vera raun­in í dag,“ seg­ir Eva.

Leiðrétt­ing um fjár­hæð at­vinnu­leys­is­bóta:

Rétt er að leiðrétta það sem kem­ur fram hér að ofan, og birt­ist einnig í Morg­un­blaðinu í dag, að tekju­tengd­ar at­vinnu­leys­is­bæt­ur geta að há­marki verið 254 þúsund krón­ur á mánuði og eru aðeins greidd­ar fyrstu þrjá mánuðina á at­vinnu­leys­is­skrá. Eft­ir það fara bæt­urn­ar í um 160 þúsund krón­ur á mánuði.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert