Fréttaskýring: Þiggja bætur frekar en láglaunastörfin

mbl.is/Ómar

Langflest lausra starfa á lista vinnumiðlunar Vinnumálastofnunar eru störf fyrir ófaglærða, eða um 40%, og víða gengur erfiðlega að ráða í þessi störf þrátt fyrir ríflega 6% atvinnuleysi.

Í gær voru 287 laus störf í 141 auglýsingu hjá Vinnumálastofnun en í lok júlí sl. voru störfin tæplega 300. Þar af 116 fyrir ófaglærða. Nánari skipting þessara starfa eftir stéttum sést hér til hliðar.

Á starfatorgi.is, þar sem hið opinbera auglýsir eftir starfskröftum, eru um 85% allra auglýsinga vegna starfa sem krefjast einhverrar sérþekkingar og/eða menntunar en eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær eru 75 auglýsingar þar inni um mun fleiri störf. Álíka margar auglýsingar eru einnig birtar á vef Reykjavíkurborgar, stærsta vinnustaðar landsins, en þar eru þetta aðallega umönnunarstörf í skólum, á frístundaheimilum og hjúkrunarheimilum.

Erfiðlega hefur gengið að fá sérfræðimenntað fólk til starfa í sumum greinum, eins og lækna, en einnig hefur hjúkrunarheimilum mörgum hverjum gengið illa að ráða til sín hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Þetta staðfesta bæði Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, og Ingibjörg Ólafsdóttir, forstöðumaður Droplaugarstaða. Pétur segir að eftir bankahrunið hafi gengið betur að ráða í störf sem ekki krefjast fagmenntunar og Ingibjörg vonast til að geta ráðið í þau fimm stöðugildi sem upp á vantar á næstu vikum. Fyrstu vikur í september séu alltaf erfiðastar, þegar skólafólkið er hætt og fastir starfsmenn enn í orlofi, sumir hverjir. Ingibjörg segir það þó ganga betur núna að fá námsmenn í hlutastörfin.

Launin ekki langt frá bótum

Atvinnurekendur furða sig á því af hverju gengur treglega að ráða í sum störf á tímum atvinnuleysis. Fyrir þessu geta verið fjölmargar ástæður, allt eftir því um hvaða starf eða starfsgrein er að ræða, en í mörgum tilvikum eru það laun og vinnutími sem virðast ekki freista fólks. Þeir sem hafa verið lengi á atvinnuleysisskrá, og eru með allt að 250 þúsund krónur á mánuði í bætur, hugsa sig um tvisvar áður en farið er út á vinnumarkaðinn fyrir störf sem gefa ekki mikið hærri tekjur af sér. Svört vinna hefur sömuleiðis færst í vöxt sem að nokkru leyti má skýra með hækkandi álögum hins opinbera.

Mikið áhyggjuefni

Meðal þeirra vinnustaða sem jafnan hefur gengið illa að fá fólk til starfa eru frístundaheimilin í Reykjavík. Að sögn Evu Einarsdóttur, formanns íþrótta- og tómstundaráðs, á enn eftir að ráða í um 40 stöður en fyrst og fremst er um 50% stöður að ræða. Þetta hefur þau áhrif að enn eru um 350 börn á biðlista eftir plássi á frístundaheimili í og við grunnskóla borgarinnar. Eva vonast til að úr rætist á næstu tveimur vikum en því miður sjái margir sér ekki hag í að taka þessi störf, ekki síst þegar um hlutastarf er að ræða. Mikilvægara sé hins vegar fyrir fólk að fá reynslu og störf inn á starfsferilsskrána en að hafa verið á atvinnuleysisbótum.

Eva hefur góða reynslu af því að starfa með atvinnulausum ungmennum og hún segir það mikið áhyggjuefni að upp er að koma önnur og jafnvel þriðja kynslóð fólks sem hefur ekki kynnst öðru en atvinnuleysi innan sinnar fjölskyldu og að hafa viðurværi sitt af bótum.

„Auðvitað vonaðist maður til þess að þetta myndi ekki gerast á Íslandi en það virðist því miður vera raunin í dag,“ segir Eva.

Leiðrétting um fjárhæð atvinnuleysisbóta:

Rétt er að leiðrétta það sem kemur fram hér að ofan, og birtist einnig í Morgunblaðinu í dag, að tekjutengdar atvinnuleysisbætur geta að hámarki verið 254 þúsund krónur á mánuði og eru aðeins greiddar fyrstu þrjá mánuðina á atvinnuleysisskrá. Eftir það fara bæturnar í um 160 þúsund krónur á mánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka