Af þeim sautján einstaklingum sem hafa greinst með HIV-smit á þessu ári eru þrír með alnæmi sem er lokastig sjúkdómsins. Þrettán af þessum sautján eru sprautufíklar en alnæmissjúklingarnir teljast ekki til þeirra.
„Það er svolítið óvenjulegt að það hafa þrír greinst með alnæmi núna í sumar sem er
lokastig sjúkdómsins og þýðir að manneskjan hafi verið með smit lengi. Þetta eru þrír gagnkynhneigðir einstaklingar, komnir yfir miðjan aldur og hafa ekki verið í fíkniefnum. Það er ekki hægt að tengja þá við sérstaka áhættu, þannig lagað,“ segir Haraldur
Briem sóttvarnarlæknir.
„Þótt við höfum þessa miklu aukningu meðal fíklanna erum við líka að sjá þetta hjá gagnkynhneigðum. Fólk sem hefur minnstu áhyggjur af því að það gæti verið með HIV á að
láta prófa sig. Svo minni ég á að nota smokkinn,“ segir Haraldur.