Hafin er söfnun undirskrifta á vefsíðunni skynsemi.is, en þar er skorað á Alþingi að leggja til hliðar aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Eru meginástæðurnar sagðar óvissa um þróun Evrópusambandsins og framtíð evrunnar, dýrt aðildarferli sem dreifir kröftum frá brýnni verkefnum og afgerandi andstaða þjóðarinnar við aðild.
Á vefsíðunni kemur fram að aðstandendur átaksins hafi ólíkar stjórnmálaskoðanir en séu sammála um að farsælast sé fyrir Ísland að aðildarumsókn að ESB verði lögð til hliðar.
Aðstandendur átaksins eru Axel Þór Kolbeinsson, tölvutæknir, Esther Anna Jóhannsdóttir, viðskiptafræðingur, Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur, Jón Árni Bragason, verkfræðingur, Jón Baldur Lorange, stjórnmála- og kerfisfræðingur, Sigríður Á. Andersen, héraðsdómslögmaður, og Sigurbjörn Svavarsson, rekstrarfræðingur.