33–37 sjálfsvíg á ári

Árlega svipta 33–37 einstaklingar sig lífi á Íslandi. Það svarar til þess að tveir til þrír einstaklingar að meðaltali svipta sig lífi í hverjum mánuði á Íslandi. Talið er að í heiminum öllum verði sjálfsvíg á 40 sekúndna fresti.

Á síðasta ári hringdi fólk í sjálfsvígshugleiðingum 210 sinnum í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og 77 sinnum hringdi fólk með áhyggjur af öðrum í sjálfsvígshættu.

Þetta kemur fram á vef Landlæknisembættisins en í tilefni alþjóðlegs dags sjálfsvígsforvarna verður haldin kyrrðarstund í Dómkirkjunni á laugardagskvöldið klukkan 20-20.30. Að kyrrðarstundinni stendur samstarfshópur á vegum þjóðkirkjunnar, Landlæknisembættisins, geðsviðs LSH, Nýrrar dögunar, Hugarafls, Geðhjálpar og aðstandenda.

Að lokinni athöfn í kirkjunni verður gengið niður að Tjörn þar sem kertum verður fleytt til að heiðra minningu þeirra sem fallið hafa frá fyrir eigin hendi.

Í tilefni af alþjóðlegum degi sjálfsvígsforvarna verður svo opnaður nýr vefur, www.sjalfsvig.is, en hann er ætlaður fólki í sjálfsvígshættu og aðstandendum þeirra sem hafa svipt sig lífi.

Um leið er endurútgefinn bæklingurinn „Ástvinamissir vegna sjálfsvígs“. Hvorttveggja er kostað af minningarsjóði Orra Ómarssonar og er samstarfshópurinn þakklátur fyrir þann stuðning sem aðstandendur sjóðsins hafa sýnt þessum tveimur verkefnum.

„Orsakir sjálfsvíga eru oft óljósar og eflaust margþættar, oft er um geðræna erfiðleika að ræða, en ekki er ólíklegt að örar félagslegar breytingar, jafnvel breytingar á samfélagslegri stöðu karlmanna kunni að valda einhverju þar um," segir á vef Landlæknisembættisins.

„Oft gleymist í umræðunni að á bak við hvert sjálfsvíg eru aðstandendur sem eiga mjög erfitt og spyrja ótal spurning sem engin svör fást við. Lífið heldur áfram en sorgin er þrúgandi, aðstandendur eiga fullt í fangi með því að sinna sjálfum sér, hvað þá öðrum verkefnum.

Það er því mikilvægt fyrir aðstandendur að fá stuðning frá nærsamfélaginu og eins að þeir finni að auðvelt sé að afla sér upplýsinga eða fá utanaðkomandi aðstoð," segir þar enn fremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert