33–37 sjálfsvíg á ári

Árlega svipta 33–37 ein­stak­ling­ar sig lífi á Íslandi. Það svar­ar til þess að tveir til þrír ein­stak­ling­ar að meðaltali svipta sig lífi í hverj­um mánuði á Íslandi. Talið er að í heim­in­um öll­um verði sjálfs­víg á 40 sek­úndna fresti.

Á síðasta ári hringdi fólk í sjálfs­vígs­hug­leiðing­um 210 sinn­um í Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og 77 sinn­um hringdi fólk með áhyggj­ur af öðrum í sjálfs­vígs­hættu.

Þetta kem­ur fram á vef Land­læknisembætt­is­ins en í til­efni alþjóðlegs dags sjálfs­vígs­for­varna verður hald­in kyrrðar­stund í Dóm­kirkj­unni á laug­ar­dags­kvöldið klukk­an 20-20.30. Að kyrrðar­stund­inni stend­ur sam­starfs­hóp­ur á veg­um þjóðkirkj­unn­ar, Land­læknisembætt­is­ins, geðsviðs LSH, Nýrr­ar dög­un­ar, Hug­arafls, Geðhjálp­ar og aðstand­enda.

Að lok­inni at­höfn í kirkj­unni verður gengið niður að Tjörn þar sem kert­um verður fleytt til að heiðra minn­ingu þeirra sem fallið hafa frá fyr­ir eig­in hendi.

Í til­efni af alþjóðleg­um degi sjálfs­vígs­for­varna verður svo opnaður nýr vef­ur, www.sjalfs­vig.is, en hann er ætlaður fólki í sjálfs­vígs­hættu og aðstand­end­um þeirra sem hafa svipt sig lífi.

Um leið er end­urút­gef­inn bæk­ling­ur­inn „Ástvinam­iss­ir vegna sjálfs­vígs“. Hvort­tveggja er kostað af minn­ing­ar­sjóði Orra Ómars­son­ar og er sam­starfs­hóp­ur­inn þakk­lát­ur fyr­ir þann stuðning sem aðstand­end­ur sjóðsins hafa sýnt þess­um tveim­ur verk­efn­um.

„Or­sak­ir sjálfs­víga eru oft óljós­ar og ef­laust margþætt­ar, oft er um geðræna erfiðleika að ræða, en ekki er ólík­legt að örar fé­lags­leg­ar breyt­ing­ar, jafn­vel breyt­ing­ar á sam­fé­lags­legri stöðu karl­manna kunni að valda ein­hverju þar um," seg­ir á vef Land­læknisembætt­is­ins.

„Oft gleym­ist í umræðunni að á bak við hvert sjálfs­víg eru aðstand­end­ur sem eiga mjög erfitt og spyrja ótal spurn­ing sem eng­in svör fást við. Lífið held­ur áfram en sorg­in er þrúg­andi, aðstand­end­ur eiga fullt í fangi með því að sinna sjálf­um sér, hvað þá öðrum verk­efn­um.

Það er því mik­il­vægt fyr­ir aðstand­end­ur að fá stuðning frá nærsam­fé­lag­inu og eins að þeir finni að auðvelt sé að afla sér upp­lýs­inga eða fá ut­anaðkom­andi aðstoð," seg­ir þar enn frem­ur.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert