Biti gekk inn í miðjan bíl

Brúin yfir Hornafjarðarfljót er ein margra einbreiðra brúa á Suðurlandi.
Brúin yfir Hornafjarðarfljót er ein margra einbreiðra brúa á Suðurlandi. Rax / Ragnar Axelsson

Tvær konur sem veltu bíl sínum á brúnni yfir Hornafjarðarfljót í dag sluppu með minniháttar meiðsl. Voru þær stálheppnar því biti úr brúarhandriðinu stakkst inn í miðjan bíl.

Ökumaður, bandarísk kona, missti stjórn á bílnum þegar hún var að aka inn á brúna yfir Hornafjarðarfljót. Þar var nýlega búið að gera við malbik og því laus möl á veginum. Bíllinn komst inn á brúna og hafnaði þar á hliðinni.

Ökumaðurinn og farþegi hans gengu út úr bílnum, án teljandi meiðsla. Konurnar voru heppnar því brúarhandriðið laskaðist og biti úr því gekk inn í bílinn, í gegn um vélarrúmið og inn í miðjan bíl. Smaug bitinn meðfram hurð bílstjórans, án þess að koma við hann. Lögreglumaður sem kom að segir að ekki hafi munað miklu að alvarlegt slys hlytist af.

Brúin er einbreið. Hún var lokuð um tíma, á meðan lögreglan athugaði aðstæður og lét fjarlægja bílflakið.

Konurnar fengu nýjan bílaleigubíl og héldu för sinni áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert