Í frásögnum íslenskra embættismanna af fundi með Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra Bretlands, 2. september 2008, kemur fram að Darling hafi þekkt mál íslensku bankanna í Bretlandi vel. Darling fjallar um fundinn í nýrri bók sinni og segir Íslendingana ekki hafa unnið málstað sínum gagn með því að reyna að fegra stöðuna.
Í bók sinni, Back from the Brink, sem kemur út í dag, segir Darling m.a. að breska fjármálaeftirlitið FSA, hafi lagt hart að honum að hitta íslensku sendinefndina sem var í Lundúnum og reyna að sannfæra hana um að grípa þyrfti til aðgerða vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Af frásögnum Íslendinganna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis má ráða að það hafi komið þeim á óvart hve auðsótt mál var fyrir þá að fá fund með Darling.
Breski fjármálaráðherrann segir síðan í bókinni að hafi fulltrúar FSA talið að Íslendingarnir hafi ætlað að lýsa vilja til að verða við kröfum Breta hafi þær vonir brugðist. „Þeir unnu málstað sínum ekki gagn með því að láta eins og allt væri í lagi. Þessi fundur litaði öll síðari samskipti mín við íslenska ráðherra," segir Darling og bætir við, að Íslendingarnir hafi ekki komið hreint fram.
Darling segir að það hafi einnig komið sér á óvart hve íslenska sendinefndin var fjölmenn. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að fundinn sátu Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Jónína S. Lárusdóttir ráðuneytisstjóri, Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður ráðherra, Áslaug Árnadóttir, formaður stjórnar tryggingarsjóðs innistæðueigenda og skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti, Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, og Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra í London.
Í skýrslunni er haft eftir bæði Björgvin og Sverri Hauki, að Darling hafi greinilega þekkt málið vel og ljóst að Bretunum var kappsmál að Landsbankinn færi með Icesave-innlánastarfsemi sína inn í breskt dótturfélag.
Jón Þór Sturluson sagði við rannsóknarnefndina, að honum hefðu þótt sérstök viðbrögð breska fjármálaráðherrans sem hefði sagt: „Skiljið þið ekki hversu alvarlegt mál þetta er?“ Íslenska sendinefndin hefði einmitt gagngert verið komin til London vegna þess hversu alvarlegt
málið væri.
Í skýrslu Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, fyrir rannsóknarnefndinni kom m.a. fram: „[...] viðskiptaráðherrann lét vel af [fundinum], ég held að ráðuneytisstjóranum í fjármálaráðuneytinu hafi nú þótt menn kannski hafa gengið fulllangt, verið full borginmannlegir í því að svona líka að telja sig geta staðið við allar skuldbindingar og það væri ekki hérna mikið til að hafa áhyggjur af.“