„Einræðisherrar kljúfa sérhverja þjóð“

Herta Müller.
Herta Müller.

„Forréttindalífið er gyllt gildra,“ sagði nóbelsskáldið Herta  Müller við setningu bókmenntahátíðar í Reykjavík í dag, „gjaldþrot mannlegrar tilvistar.“ Rauði þráðurinn í ræðu Müller í Norræna húsinu  voru einræðisherrar fyrri tíma og síðari, synir þeirra og sjúkleiki valdagræginnar, en einnig andófið og máttur orðsins.

„Einræðisherrar kljúfa sérhverja þjóð,“ sagði Herta Müller, sem fæddist og bjó á þýsku málsvæði í Rúmeníu í tíð einræðisherrans Nicolais Ceausescus. „Annars vegar eru þeir sem þjóna þeim gegn umbun. Hins vegar eru þeir sem ofsóttir eru vegna þess að þeir láta ekki sjálfræðissviptingu yfir sig ganga líkt og um náttúrulögmál væri að ræða. Þessi tvískipting helst eftir að einræðisherrunum hefur verið steypt af stóli. Hún lifir áratugum saman, því koma verður á hreint hvernig þeir sem voru í náðinni brutu á hinum ofsóttu.“

Müller talaði einnig um bókmenntir í einræðisríkjum. „Í lýðræðisríkjum rata  bókmenntir sínar eigin leiðir,“ sagði hún. „Í einræðisríkjum hafa þær hins vegar ekki annað val en að ganga brjálæði raunveruleikans á hönd: vanmáttur og ofsahræðsla eru alltaf til staðar. Ef við skrifum ekki um það, til hvers ættum við þá að skrifa? Bókmenntir eru líka aðeins þær sjálfar í einræðisríkjum. Þær gera höfundinum ekki beinlínis léttara fyrir. Og handan líkama hans geta þær engu breytt. Að minnsta kosti ekki í fljótu bragði. Þær eru einiungis sviðsettur látbragðsleikur manns sjálfs. En sem slíkur, geta þær bitið frá sér jafnvel þótt þær færi engum öðrum vissuna. Innri neyð beinir tungumálinu ofan í spor hins niðurtraðkaða lífs.“

Máttur orðsins og afl mennskunnar

Max Dager, forstjóri Norræna hússins, sagði að í hönd færu fimm einstakir og eftirminnilegir dagar. Hann vísaði í illsku samtímans og sagði að nú þyrftum við á „mætti orðsins og afli mennskunnar að halda … Við þurfum orðin og sögurnar til að geta veitt viðnám óskiljanlegri manndómsvígslu fullorðins drengs sem lauk eins og tölvuteiknaðri aftöku á framtíðinni í Útey rétt fyrir utan Ósló í sumar.“

Jón Gnarr,  borgarstjóri, rifjaði upp að þrettán ára hefði hann orðið fyrir þeirri reynslu að rekast á sjálfan sig í skáldsögu. „Ég var gagntekinn af Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson,“ sagði hann.

Borgarstjóri sagði að menningin væri dýrmætust sameiginlegra auðæfa mannkyns. Þegar Reykjavík hefði verið útnefnd bókmenntaborg af Unesco hefði það verið mikilvæg viðurkenning. „Ég fagna því innilega að Reykjavík hafi hlotnast þessi heiður,“ sagði hann. Hann bætti við að eitt mikilvægasta hlutverk bókmenntaborgara væri að halda bókmenntahátíð, sem væri samtal höfunda við lesendur.

Jón Gnarr sagði að Reykjavík hefði nýlega gerst félagi í samtökunum Icorn og yrði því skjólborg  rithöfunda, sem ekki væri vært í heimalandi sínu. Fyrsti gesturinn væri væntanlegur  í haust og vænti borgarstjóri þess að honum yrði vel tekið. Hann þakkaði að lokum skáldum fyrir að vekja okkur og ýta við okkur.

Tileinkuð Thor

Bókmenntahátíðin er að þessu sinni tileinkuð Thor Vilhjálmssyni, sem lést fyrr á árinu. Einar Kárason rithöfundur rakti í ávarpi hlut Thors í bókmenntahátíð. Í upphafi hefði hún átt að verða norræn, en Thor hefði komið í veg fyrir það. Thor hefði þótt það ótækt því að köllun sannra bókmennta væri alþjóðleg og möguleikar sköpunargáfunnar á að vaxa væru meiri eftir því sem aðgangur væri meiri að röddum úr öllum heimsálfum.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti einnig ávarp og minntist Thors Vilhjálmssonar. Hún sagði að 2011 væri merkisár í íslenskum  bókmenntum og nefndi meðal annars gestahlutverk Ísland á bókmenntahátíðinni í Frankfurt í haust. Nefndi hún að fleiri titlar íslenskir hefðu verið þýddir á þýsku en hjá þeim löndum, sem voru gestir á undan Íslendingum, Kína, Argentínu og Tyrklandi. Nú færi hins vegar í hönd bókmenntaveisla , sem hún bauð gestum að njóta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka