Ekki ótvíræð merki um yfirvofandi gos

Atburðarásin að undanförnu er talin geta verið langtímaforboði eldgoss.
Atburðarásin að undanförnu er talin geta verið langtímaforboði eldgoss. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Ekki eru komin fram ótvíræð merki um að gos í Kötlu sé yfirvofandi. Þetta varð niðurstaða fundar í Vísindamannaráði almannavarna í dag þar sem rætt var um atburði liðinna vikna undir Mýrdalsjökli.

Í frétt frá Almannavörnum segir að frá því í júlí hafi verið nokkuð aukin jarðskjálftavirkni í Kötluöskjunni. „Þessi jarðskjálftavirkni er þó ekki meiri en stundum hefur verið á undanförnum árum. Þá hefur orðið veruleg aukning á jarðhitavirkni í suðaustanverðri öskjunni. GPS mælingar sýna jafnframt að ekki hefur orðið umtalsvert landris innan öskjunnar á síðustu misserum.

Niðurstaða fundarins var sú að ekki séu komin fram ótvíræð merki um að gos í Kötlu sé yfirvofandi. Atburðarásin sem nú er í gangi gæti þó verið langtímaforboði eldgoss. Hliðstæðar umbrotahrinur hafa orðið í Kötlu áður án þess að það hafi leitt til eldgoss.
Aukin jarðskjálftavirkni og aukin jarðhitavirkni kalla þó á aukið eftirlit jarðvísindamanna og þeirra sem starfa að almannavörnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert