Þingmenn sögðust á Alþingi í dag fagna hugmyndum kínverska kaupsýslumannsins Huangs Nubo um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og uppbyggingu í ferðaþjónustu og lögðu áherslu á að leitað verði lausna í málinu.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsti þeirri skoðun, að Huang og íslensk stjórnvöld eigi að funda um það með hvaða hætti farið verði í uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum. Um leið ætti að gæta að því að leitað verði til innlendra aðila við uppbygginguna.
Spurði Magnús Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokks, hvort hún telji ekki að leita eigi lausna í málinu og stuðla að innstreymi erlends fjármagns í ferðaþjónustu og byggja upp innviði þeirrar atvinnugreinar.
Þorgerður Katrín sagði að hin algilda regla ætti að vera, að landið sé opið fyrir fjárfestingum. Ef farið væri eftir þeim lagaramma, sem um slíkar fjárfestingar gilti, ætti ekki að skipta máli hvort fjárfestar komi frá Evrópusambandinu, Kína, Japan eða Indlandi.
Þorgerður Katrín sagði það hins vegar umhugsunarvert, að það virtist skipta máli hvaða ráðherrar væru í ríkisstjórn hverju sinni hvort slíkar fjárfestingar væru leyfðar.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði afar brýnt að leiða saman Huang og íslensk stjórnvöld til að fá úr því skorið hvort fjárfestingin stæðist innlendar reglur.
„Það er afskaplega brýnt að Íslendingar horfi til aukinnar fjölbreytni í uppbyggingu atvinnilífs hér á landi," sagði Sigmundur Ernir. „Því er það hálfgert afturhald að hafna hugmyndum sem þessum, sem einmitt leiða til þess að fjölbreytni í atvinnulífi eykst."
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að ekkert væri sjálfgefið í þessu máli frekar en öðrum en alls ekki ætti að slá þessar hugmyndir út af borðinu. Ef lausn fyndist sem flestir sættu sig við ætti auðvitað að fagna þessari fjárfestingu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist fagna því að erlendir fjárfestar hafi áhuga á að fjárfesta á Íslandi í ljósi þeirra viðbragða, sem slíkar hugmyndir hefðu fengið á síðustu misserum.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þetta mál snérist ekki um það hvort menn væru fylgjandi erlendri fjárfestingu á Íslandi eða ekki. Málið snérist nú um það að fá svarað tilteknum lagalegum spurningum og hvort þessi tiltekna fjárfesting væri í samræmi við þau lög sem giltu um erlenda fjárfestingu á Íslandi.
Vitnaði Einar til greinar eftir Baldur Guðlaugsson í Morgunblaðinu í dag en þar vísar Baldur meðal annars til lagaákvæðis sem bannar fjárfestingu erlendra ríkja. Sú lagagrein hljóti að koma til skoðunar í þessu máli því í kínversku þjóðfélagi blandist saman viðskipti, stjórnsýsla og stjórnmál.
Efnahags- og viðskiptaráðherra þurfi því að svara spurningum í málinu áður en innanríkisráðherra tekur ákvörðun um hvort leyfa eigi fjárfestinguna. Þegar niðurstaðan væri komin um lagalega hlið málsins væri hægt að fara að ræða hinar pólitísku. En í ríkisstjórninni væri bullandi ágreiningur um þessar pólitísku spurningar eins og í nánast öllum öðrum málum.
„Því sýnist mér að þetta mál sé komið í miklar ógöngur vegna þess að menn eru ekki farnir að svara hinum lagalegu spurningum en búnir að svara hinum pólitísku spurningum fyrirfram: VG er á móti, Samfylkingin með," sagði Einar.