Alls hafa tæplega 2.000 skrifað undir áskorun á Alþingi á vefsíðunni skynsemi.is um að leggja til hliðar umsóknina um aðild að ESB. Söfnunin hófst í gær. Meðal þeirra sem skrifa undir er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
„Ég styð þessa söfnun,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is
Hópur einstaklinga stendur að þessari söfnun undirskrifta. Frosti Sigurjónsson rekstrarverkfræðingur og einn af aðstandendum átaksins, segir að fólk með ólíkar stjórnmálaskoðanir standi að baki þessu átaki.
Meginástæða þess að ákveðið er að safna undirskriftum með áskorun um að aðildarumsóknin verði lögð til hliðar er m.a. sú óvissa sem ríkir í Evrópu um þróun ESB og framtíð evrunnar. Einnig nefnir Frosti að meirihluti þjóðarinnar hafi ekki áhuga á að halda aðildarviðræðunum áfram, eins og fram hefur komið í skoðanakönnunum.
Frosti bendir einnig á að Evrópusambandið er að ganga í gegnum breytingarferli, sem mun hugsanlega standa yfir í einhver ár.
„Núna er þetta ótímabært og það eru önnur miklu brýnni verkefni fyrir þessa litlu þjóð en þetta. Við höfum takmarkaðan mannafla til þess að einbeita okkur að þessum verkefnum. Töluverður hluti stjórnsýslunnar er upptekinn vegna þessara viðræðna, þetta kostar fjármuni og svo er þjóðin klofin í málinu. Við ættum því að vera að ræða önnur og þarfari mál,“ segir hann.
Ekki hefur verið ákveðið hversu lengi undirskriftum verður safnað en að því loknu verður áskorunin afhent Alþingi. Frosti segist vera mjög ánægður með undirtektirnar frá því að söfnunin hófst enda hafi hátt í tvö þúsund þegar skrifað undir á einum sólarhring.