Sækja fast að fá greitt úr þrotabúinu

Mörg ágreiningsmál koma til kasta dómstóla vegna afstöðu slitastjórnar Gamla …
Mörg ágreiningsmál koma til kasta dómstóla vegna afstöðu slitastjórnar Gamla Landsbankans til krafna í þrotabúið. mbl.is/Eggert

The Telegraph í Bretlandi fjallar í kvöld um deilurnar um forgangskröfur í þrotabú gamla Landsbankans og segir að eigendur skuldabréfa á bankann muni sækja fast að færast framar í kröfuröðinni og endurheimta þá fimm milljarða punda sem töpuðust við fall íslensku bankanna.

The Telegraph fjallar um ágreiningsmál kröfuhafa gegn þrotabúi Landbankans um forgangskröfur í búið þar sem reyna mun á gildi neyðarlaganna en málflutningur í tveimur þeirra hefst fyrir Hæstarétti á morgun.

Í frétt á vefsíðu blaðsins segir að eigendur skuldabréfa sem bankinn gaf út á sínum tíma og seldi, en í þeim hópi eru m.a. vogunarsjóðir, séu mjög ósáttir við að vera settir aftar í kröfuröðinni en bresku sveitarstjórnirnar sem krefjast endurgreiðslna úr búinu. Ætla þeir að reyna allt til að fá afstöðu slitastjórnar þrotabúsins rift.

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti gildi neyðarlaganna sl. vor og forgang innstæðna í þrotabú fjármálastofnana. Ágreiningur hefur verið um kröfur vegna heildsöluinnlána breskra og hollenskra sveitarfélaga í þrotabú gamla Landsbankans en skv. dómi héraðsdóms var staðfest að heildsöluinnlán teldust innistæður í skilningi laga og nytu því forgangs.

Þessu vilja eigendur almennra krafna í búið fá hnekkt. Útlit sé fyrir að sveitarfélögin fái mestallt sitt til baka þegar greiðslur hefjast úr þrotabúinu en almennu kröfuhafarnir ekkert. Segist The Telegraph hafa heimildir fyrir því að ef niðurstaða Hæstaréttar verður sú sama og dómur héraðsdóms hafi eigendur skuldabréfa í hópi kröfuhafa uppi áform um að fá úr ágreiningnum skorið hjá Evrópudómstólnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert