Snjókoma í Mývatnssveit

Hvít jörð er á Mývatnsöræfum, eins og sést á vefmyndavél …
Hvít jörð er á Mývatnsöræfum, eins og sést á vefmyndavél Vegagerðarinnar. Myndin sýnið veðrið kl. 19.30.

„Það kyngir niður snjó, ég rétt sé niður á vatn. Fólk verður að skafa af bílrúðunum áður en það leggur af stað,“ segir Kristján Sævarsson á Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit. Slydda og sjókoma er víða á Norðurlandi og hvít jörð á fjallvegum.

Á vefmyndvélum Vegagerðarinnar má sjá að slydda eða snjókoma hefur verið síðdegis í dag og í kvöld á fjallvegum norðanlands. Þannig virðist vera alhvít jörð á Víkurskarði og Mývatnsöræfum. Þá er alhvít jörð við Öskju.

Er þetta fyrsti snjór haustsins. „Jú, þetta er fullsnemmt, sérstaklega þegar við urðum ekki mikið varir við sumarið,“ segir Kristján. Hann segir reyndar ekki langt síðan síðast snjóaði, hann hafi vaknað við alhvíta jörð morgun einn um miðjan júní.

Allmargir ferðamenn eru enn í Mývatnssveit. Kristján telur að þeir líti á þetta sem skemmtilega upplifun.

Búast má við því að snjóinn taki fljótt upp enda er blautt í honum. Draga á úr úrkomu á morgun, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert