Efnahags- og skattanefnd Alþingis fjallar nú um að framlengja heimild til að taka út séreignasparnað en samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lífeyrissjóðslögum rann sú heimild út 31. mars síðastliðinn.
Upphaflega stóð til að framlengja heimildina til ársloka en á fundi nefndarinnar í gærmorgun komu fram tillögur frá fjármálaráðuneytinu um að fresturinn yrði framlengdur til 1. júlí 2012.
Enn fremur að heildarupphæð úttektar verði hækkuð úr 5 milljónum í 6.250.000 krónur.
Lilja Mósesdóttir, meðlimur efnahags- og skattanefndar, segir ástæðu þess að ráðuneytið vilji hækka upphæðina vera þá, að ríkissjóður geri ráð fyrir að hafa um tveggja milljarða króna tekjur af útborgun séreignasparnaðarins. Hún segir ergilegt að alltaf sé verið að sækja tekjur ríkissjóðs í vasa heimilanna.
Til stendur að afgreiða frumvarpið á septemberþinginu og telur Lilja að ekki verði mikill ágreiningur um það innan nefndarinnar.
„Ég held að það sé almennur vilji til þess að fólk ráði því sjálft hvort það tekur þetta út eða ekki, en á sama tíma er maður meðvitaður um að við erum að breyta eðli séreignasjóðanna úr því að vera viðbótarsparnaður fyrir elliárin í það að verða varasjóður fyrir mögru árin,“ segir Lilja.
Auk þess sé sú gagnrýni beitt sem segir að með þessum lagabreytingum sé verið að hvetja fólk til þess að taka út einu eignina sem ekki er aðfararhæf við gjaldþrot, til þess að bjarga fasteign sem fólk er að missa úr höndunum.
„Ég hef miklar áhyggjur af þessu, að fólk sem í raun og veru ætti að fara í þrot sé að rembast við að halda í fasteignir með úttekt úr séreignasparnaðinum og eigi þá ekki þennan sparnað til þess að byrja upp á nýtt,“ segir Lilja.