Auðsældin á Íslandi byggðist á röngum forsendum

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Árni Sæberg

Björgólfur Thor Björgólfsson sagði í erindi, sem hann flutti í Kaupmannahöfn í gær, að auðsældin á Íslandi á síðasta áratug hefði byggst á röngum forsendum.

„Stjórnvöld héldu gengi krónunnar allt of háu, sem þýddi að verðlag var lægra en það hefði átt að vera í raun. Fjármagn var ódýrt, en það var blekking. Gamla fiskveiðiþjóðin stundaði ofveiðar á fjármagnsmörkuðum.  Þegar yfir lauk var fall krónunnar miklu þyngra högg fyrir samfélagið en fall bankanna. Þetta hefði ég átt að sjá, en ég var einn þeirra sem hreifst með. Þegar þessu samkvæmi lauk voru eftirköstin ægileg. Því miður hélt hjarðhegðunin hins vegar velli eftir hrun; allir hlupu í eina og sömu átt og hrópuðu sömu ásakanir," segir Björgólfur á heimasíðu sinni þar sem hann fer yfir erindið.

Björgólfur segir einnig, að hann hefði líka átt að sjá hversu fámennur hópur og nátengdur var að baki viðskiptum á Íslandi. Bankarnir stækkuðu, en áhættan dreifðist ekki að sama skapi.

„Ég var vissulega einn af stærstu skuldurunum, en ég átti eignir á móti. Aðrir tóku lán með litlum eða jafnvel engum veðum, sem er fáránlegt! Mér varð ekki ljóst hið gríðarlega umfang „sýndarviðskipta“ fyrr en eftir hrunið. Og vel á minnst: Hvernig stendur á því að þeir sem voru mest áberandi eru ekki gjaldþrota? Aðeins þrír þeirra hafa lýst yfir gjaldþroti; báðir fyrrum viðskiptafélagar mínir í Landsbanka og einn framkvæmdastjóri hjá Baugi. Það er allt og sumt. Enginn annar, ekki einn af öllum þeim sem skulduðu sem mest í Kaupþingi, Glitni og Landsbanka, aðeins þessir þrír. Hvers vegna? Er þetta eðlilegt? Það er ekki eins og þeir sem tóku þátt í sýndarviðskiptunum og seldu hver öðrum eignir á útblásnu verði, hafi megnað að semja um yfirþyrmandi skuldir sínar," segir Björgólfur.

Erindið var flutt á málþingi á vegum danska viðskiptablaðsins Börsen og Norðurlanda í brennidepli. Auk Björgólfs fluttu Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank og Helgi Hjörvar, alþingismaður og formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis erindi. Efni málsþingsins var hvaða lærdóm megi draga af kreppunni á Íslandi og hvernig verja megi banka- og fjármálageirann fyrir samsvarandi kreppum í framtíðinni.

Vefur Björgólfs Thors

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert