Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir fjármálaráðherra ekki hafa átt í neinu leynimakki með Magma Energy til að tryggja að ekkert yrði af byggingu álvers í Helguvík. Kom þetta fram í svari hennar til Ragnheiðar Elínar Árnadóttir, þingmanns Sjálfstæðisflokks, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi nú fyrir stundu.
Í frétt í Morgunblaðinu í dag er vísað í gögn sem tekin hafa verið saman í fjármálaráðuneytinu og varða samskipti hins opinbera við Magma, HS Orku, Geysi Green Energy, Norðurál, Íslandsbanka og sveitarstjórnir á Suðurnesjum. Voru þau afhent hagsmunaaðilum á grundvelli upplýsingalaga. Er þar fullyrt að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafi ljóst og leynt beitt sér gegn álveri í Helguvík og beitt áhrifum sínum í þeim tilgangi.
Spurði Ragnheiður Elín hvort iðnaðarráðherra hefði vitað um þetta baktjaldamakk og hvort hún teldi það eðlileg afskipti af málinu. Þá spurði hún hvort Katrín stæði enn við fyrri fullyrðingar sínar um að ekkert stæði upp á stjórnvöld með álverið í Helguvík.
Svaraði Katrín því til að í greininni væri vísað í drög að rammaáætlun þegar verið var að kanna möguleikann á því að hægt væri að koma saman hópi ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða til þess að koma í veg fyrir að erlend fyrirtæki næðu meirihlutaeign á HS Orku.
Dregnar væru rangar ályktanir í grein Morgunblaðsins og að verið væri að setja gögnin sem vísað væri til í samhengi sem það ætti ekki heima í. Ekkert væri óeðlilegt að framtíðarhugmyndir eins og orkusala til fleiri aðila væri rædd við hugsanlega meðeigendur að orkufyrirtækinu.
Hafði öðrum hnöppum að hneppa
Áður hafði Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, beðið Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra að útskýra hvernig það hafi farið saman að fjármálaráðherra hafi á fyrstu stigum málsins lýst yfir áhuga á að Magma keypti í HS Orku en strax í kjölfarið unnið gegn sölunni og hvort henni hafi verið kunnugt um þessa jákvæðu afstöðu hans.
Sagðist Svandís hafa haft öðrum hnöppum að hneppa en að lesa grein Morgunblaðsins. Það væri klár pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af einkavæðingu HS Orku hvað sem fréttaskýringum blaðsins liði. Bjarna væri vorkunn að byggja málflutning sinn á frétt sem Agnes Bragadóttir blaðamaður væri skrifuð fyrir.