„Við höfum lært mikilvægi þess að láta ekki afvegaleiðast af því sem kallað hefur verið „ýkju-hagkerfið“,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í upphafsávarpi á evrópskri ráðstefnu um nýsköpun kvenna í hagkerfum samtímans, sem fram fer í Hörpu í vikunni.
Með ræðunni steig forsetinn enn eitt skrefið í átt til fullnaðaruppgjörs á bóluárunum, sem svo hafa verið nefnd, þegar nær ótakmarkaður aðgangur að lánsfé setti mjög svip á íslenskt athafnalíf og þjóðlíf allt áður en blaðran sprakk loks með fjármálahruninu 2008.
Orðrétt sagði forsetinn um þetta skeið:
„Við höfum lært mikilvægi þess að láta ekki afvegaleiðast af því sem kallað hefur verið „ýkju hagkerfið“; að sniðganga ekki útflutningsdrifnar framleiðslugreinar; að láta ekki blekkjast af seiðandi söng fjármálastofnana, himinháum bónusgreiðslum þeirra, munaðarlífi og skilvirkri almannatengslavél.
Til lengri tíma litið er það sem við getum framleitt, ekki það sem við getum blásið út, sem mun grundvalla árangur okkar,“ sagði forsetinn en þýtt er úr ensku.
Má til gamans geta að með tilvísun í seiðandi söng vitnaði forsetinn til sírena en þær voru „raddfagrar sjávardísir, að hálfu í fuglslíki, er seiddu svo sæfara með söng sínum að þeim var glötun ein vís“, svo sótt sé í íslenska útskýringu á vefnum snara.is á ensku orðunum „siren song“.
Þá vék forsetinn að smæð Íslands og hvernig landið væri í einstæðri stöðu til að sækja fram á vettvangi skapandi greina, líkt og Norðurlöndin, vegna innviða og menningarlegra hefða.
Komst forsetinn svo að orði að „almættið hefði verið og væri í mjög skapandi ham þegar það sótti Ísland heim“.
Ræðu forseta má nálgast hér.