Tveir stjórnarmenn Hagsmunasamtaka heimilanna og varastjórnarmaður hafa sagt af sér störfum. Segjast þau ósátt við aðferðafræði stjórnarinnar sem og pólitíska slagsíðu.
Elías Pétursson varaformaður, Gunnar Kristinn Þórðarson ritari og Matthildur Skúladóttir, meðlimur í varastjórn, sendu öll bréf til stjórnarinnar í vikunni þar sem þau tilkynntu afsögn sína.
„Ég er ósammála meirihluta stjórnar um nálgun í málflutningi og hvar eigi að bera niður. Þetta er mikið uppreisnarfólk sem telur að besta leiðin sé að láta allt hrynja og byggja síðan upp það land sem þau vilja,“ segir Elías.
Hann segir að ákvörðun þeirra þriggja um að segja af sér hafi ekki verið tekin í sameiningu en að þau hafi öll verið búin að gefast upp á herskáum aðferðum og upphrópunum.
Gunnar Kristinn segir í sínu bréfi að í stjórninni hafi verið uppi óbrúanlegur ágreiningur um aðferðafræði í störfum stjórnar og um hvað sé heimilunum og hagkerfinu fyrir bestu.
„Ég hef litið svo á að tilgangur samtakanna sé að byggja upp efnahagslífið og gera heilt það sem sjúkt var fyrir, en ekki sundra því og eyðileggja. Skilningur meirihluta stjórnar er hins vegar sá að efnahagslífið megi, og jafnvel verði að hrynja til grunna til að samtökin nái fram kröfum sínum, eins og ráða má af málflutningi formanns í Kastljósviðtali á dögunum,“ segir Gunnar í bréfinu.
„Þrátt fyrir að forsendur séu að skapast fyriri samningsumleitunum við stjórnvöld og hagsmunaaðila virðist ekki vera áhugi hjá meirihluta stjórnar að bryggja brýr og eiga samræður við deilandi aðila um hagsmuni heimila. Í stað þess að tala um samningsvilja hjá samtökunum væri nær að tala um stríðsvilja.“
Gunnar segir einnig í bréfi sínu að gróf pólitísk slagsíða sé komin upp í stjórnarstarfi samtakanna og hugmynda- og aðferðafræði Hreyfingarinnar og órólegu deildar VG ráði ríkjum. Auk þess halli stjórnin sér að hugmyndafræði Attac-samtakanna, sem gangi „út á draumkennda sýn á tilveruna sem minnir helst á vísindaskáldsögu“.