Hlýtur að íhuga afsögn

Bygging álversins í Helguvík hefur tafist mikið.
Bygging álversins í Helguvík hefur tafist mikið. mbl.is/Golli

Gunnar Þórarinsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, telur að fjármálaráðherra hljóti að íhuga afsögn í ljósi framkominna upplýsinga varðandi mál tengd byggingu álvers í Helguvík.

Gunnar sendi frá sér svohljóðandi yfirlýsingu í dag:

„Það eru alvarlegri tíðindi en orð fá lýst að háttvirtur fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafi beitt sér bak við tjöldin til að tryggja að ekkert yrði af uppbyggingu álvers í Helguvík. Slík atlaga að atvinnumálum á Suðurnesjum er afar ógeðfelld og með öllu ólíðandi.

Málið er enn alvarlegra fyrir þær sakir að fjármálaráðherra ber fulla ábyrgð á fjárfestingarsamningi ríkisstjórnarinnar og Norðuráls, þar sem því er heitið að veita verkefninu fullan stuðning. Í ljósi þessa hlýtur ráðherra að íhuga tafarlausa afsögn.“

Gunnar sagði í samtali við mbl.is að verkefninu hefði verið hrundið af stað með glæsibrag og núverandi ríkisstjórn þá verið „í klappliðinu“. Síðan hefði hvorki gengið né rekið.

„Það kemur ekki á óvart að eitthvað svona væri á bak við,“ sagði Gunnar. Hann sagði að nú kæmi í ljós hvers vegna verkefnið hefði tafist svo mjög. Gunnar kvaðst gera ráð fyrir því að fjallað yrði um málið á vettvangi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert