Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, líkti fjarveru Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi við barnabókina „Hvar er Valli?“ Þingmenn stjórnarandstöðu gagnrýna að hún hafi aldrei svarað fyrirspurnum þingmanna á þessu þingi.
Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf óundirbúinn fyrirspurnartíma á Alþingi nú fyrir stundu með því að gagnrýna það að hvorki forsætisráðherra né Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra væru viðstödd fyrirspurnartímann.
Sagði hún að það væri óþolandi að forsætisráðherra hunsaði ítrekað þingið. Bað hún þingforseta að koma því á framfæri við Jóhönnu að hún svaraði brýnum spurningum þingmanna. „Ef þetta er það sem koma skal á komandi vetri er ekki von á góðu,“ sagði Ólöf.
Benti Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingforseti þá á að forsætisráðherra væri við opinber störf að taka á móti erlendum gestum. Sagði Gunnar Bragi að ráðherrann hefði einnig skyldum að gegna við þing og þingmenn.