Bræðratunguvegur og ný brú yfir Hvítá verða formlega opnuð á morgun klukkan 15.00. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra mun þá klippa á borða.
Þessi nýja leið styttir vegalengdina á milli Flúða og Reykholts um 20 km. Heildarvegalengd nýs Bræðratunguvegar er um 7,5 km, frá Hrunamannavegi um Hvítá að Biskupstungnabraut. Vegurinn er 8 m breiður. Ný brú á Hvítá er 270 m að lengd. Tvær akbrautir eru á brúnni og er samanlögð breidd þeirra 9 m, auk þess sem 2 m breið göngu-/reiðleið er á brúnni. Áætlaður heildarkostnaður vegna verksins er 1.140 m. kr., að sögn Vegagerðarinnar.
Markmið framkvæmdarinnar er að stytta og bæta samgöngur í uppsveitum Árnessýslu og auka umferðaröryggi. Jafnframt er nýjum vegi ætlað að bæta aðgengi ferðamanna og sumarhúsagesta að vinsælum áningar- og ferðamannastöðum.