Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir á vef samtakanna að stórhætta sé á að núverandi kreppuástand vari út þennan áratug.
Viljálmur segir, að ríkisstjórnin sýni hvorki forystu né vilja til að skapa samstöðu og koma landinu út úr kreppunni. Hún láti tækifærin til að koma atvinnulífinu á alvöru skrið og vera komin upp úr kreppunni árið 2015 renna sér úr greipum.
„Að sjálfsögðu gagnrýna forystumenn ríkisstjórnarinnar alla þá sem þeim virðast ekki sjá ljósið en skilja ekki að þeim, sem vanist hafa myrkrinu, verður minnsta skíma að skínandi leiftri,“ segir Vilhjálmur.
Segir Vilhjálmur að Samtök atvinnulífsins hafi verið óþreytandi að benda á nauðsyn þess að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og efla atvinnu og hagvöxt í bráð og lengd. Horfur séu á að hagvöxtur þessa árs verði hægur og spár fyrir árið 2012 bendi til þess að væntingar aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninganna um 4-5% hagvöxt verði óraunhæfari með hverri vikunni sem líður. Ef hagvöxtur af þeirri stærðargráðu ætti að nást á næsta ári þyrfti kröftug uppsveifla að hefjast nú á haustmánuðunum sem héldist á nýju ári. „Það gerist ekki,“ skrifar Vilhjálmur.
Hann bætir við að loforðakvóti ríkisstjórnarinnar sé búinn en hún hafi enn svigrúm til að skapa skilyrði fyrir nauðsynlegar fjárfestingar, aukna atvinnu og bætt lífskjör.