Störfum í Grindavík fækkar um 200-300 ef stjórnarfrumvarp um stjórn fiskveiða verður að lögum og hefur í för með sér 15% skerðingu aflaheimilda í bænum. Lækkun tekna og fækkun starfa mun leiða til um 70 milljóna króna lækkunar á útsvarstekjum bæjarins. Kemur þetta fram í umsögn bæjarstjórnar um frumvarpið.
Bæjarstjórnin leggur til að frumvarpið, sem nú er til meðferðar á Alþingi, verði dregið til baka og reynt að ná sátt um íslenskan sjávarútveg með reglum sem hafi það að markmiði að styrkja greinina í heild sinni og skapa hvata til þess að hámarka verðmæti, draga úr framleiðslukostnaði og auka þar arðsemi og tekjur þjóðarbúsins.
Í umsögninni kemur fram að sjávarútvegsfyrirtækin í Grindavík skapa um 1.000 bein störf við veiðar og vinnslu á Íslandi, sem eru álíka mörg störf og eru í áliðnaði á Íslandi. Varlega áætlað hleypur fjöldi afleiddra starfa sem sjávarútvegur í Grindavík skapar á fleiri hundruðum.
„Skerðing á aflaheimildum um 15% ætti því að öðru jöfnu að leiða til 15% fækkunar starfa, eða um 150 bein störf. Gera má ráð fyrir annarri eins fækkun afleiddra starfa í vélsmiðjum, hjá iðnaðarmönnum og fleiri þjónustuaðilum. Heildaráhrif skerðingar aflaheimilda í Grindavík munu því að líkindum fækka störfum um 200-300. Lækkun tekna og fækkun starfa vegna skerðingar aflaheimilda mun leiða til um 70 milljóna kr. lækkunar á útsvari bæjarins,“ segir í fréttatilkynningu frá Grindavíkurbæ.
Bent er á að Grindavíkurhöfn er umsvifamesta fiskihöfn landsins, en á árinu 2010 var landað þar um 35.000 þorskígildistonnum. „Dragist landaður afli saman um 4.000 þorskígildistonn mun það leiða til tekjutaps upp á um 20 milljónir á ári. Afkoma hafnarinnar er mjög slæm fyrir þar sem tekjur hrundu við það að fiskimjölsverksmiðjan brann fyrir fáeinum árum og var ekki endurreist. Grindvíkingar fóru ekki fram á sérmeðferð eftir það reiðarslag, heldur börðust áfram í öðrum greinum sjávarútvegs eins og þeir hafa alltaf gert og vilja fá að gera í friði.“
Vakin er athygli á því að auðlindagjald er sértækur skattur á sjávarútvegsfyrirtæki og þar með íbúa sjávarbyggða. „Frá árinu 2004 hafa sjávarútvegsfyrirtæki í Grindavík greitt um einn milljarð króna í veiðileyfagjald sem runnið hefur til ríkisins í stað þess að nýtast að minnsta kosti að hluta í þágu þess bæjarfélags þar sem arðurinn skapast. Bæjarfélagsins sem ber kostnað af höfninni og öðrum innviðum sem nýtast landsmönnum öllum.“