„Þessar tölur eru mikil vonbrigði og benda til þess að hagvöxtur á þessu ári verði öllu minni heldur en felst í nýjustu hagvaxtarspá Seðlabankans. Og þarna er líka verið að endurskoða tölur fyrir síðasta ár sem benda til þess að slakinn í hagkerfinu hefur verið meiri en fyrri tölur bentu til,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka.
Nýjar tölur frá Hagstofu Íslands sýna að landsframleiðsla dróst saman um 2,8% að raungildi milli fyrsta og annars ársfjórðungs þessa árs. Á síðasta ári var samdrátturinn 4% en fyrri tölur bentu til 3,5% samdráttar.
„Það sem er þá undirliggjandi í þessum tölum fyrir þetta ár er að einkaneyslan er að vaxa en hún er að vaxa hægar en menn voru að reikna með. Og fjárfestingin er líka að vaxa mjög hægt, hún er reyndar að taka aðeins við sér en hún er að vaxa mjög hægt,“ segir Ingólfur.
Hann segir svipaða hluti vera að gerast í öðrum löndum, hægt hafi á hagvexti og auðvitað sé það áhyggjuefni að hagkerfið sé ekki að taka hraðar við sér.
„Það væri æskilegra að hafa þennan hagvöxt miklu hraðari og sérstaklega hefði ég viljað sjá útflutning og fjárfestingu taka við sér af krafti. En það er ekki að gerast. Það er áhyggjuefni því þaðan myndi maður vilja sjá þessa uppsveiflu koma,“ segir hann.
Ingólfur segir litlar sem engar líkur á því að hagvaxtarspá Seðlabankans nái fram að ganga.
„Seðlabankaspáin var upp á 2,8% hagvöxt fyrir þetta ár og miðað við þessar tölur þá þurfum við að sjá 3% hagvöxt á síðari hluta árs. Sem er augljóslega, miðað við aðstæður erlendis og það sem hér er að gerast hér heima, algjörlega út úr myndinni.“