Vegfarendur handtóku bílþjófa

Ungu mennirnir stálu Volvo-bifreiðinni en bökkuðu beint á annan bíl …
Ungu mennirnir stálu Volvo-bifreiðinni en bökkuðu beint á annan bíl og komust ekki lengra. mynd/Reynir

Tveir ungir menn stálu bíl af konu sem brá sér inn á bensínstöð í dag og stórskemmdu bílinn. Þeir hlupu í burtu en vegfarendur stöðvuðu þá og afhentu lögreglu.

Málið var tilkynnt lögreglu um klukkan fjögur í dag. Á meðan ökumaður brá sér inn í bensínstöð N1 við Borgartún fóru tveir menn inn í bíl hans og reyndu að aka í burtu. Þeir bökkuðu hinsvegar á bifreið sem stóð við bensíndælu og aðra bifreið.

Mennirnir hlupu síðan í burtu en vegfarendur náðu þeim og beittu svokallaðri borgaralegri handtöku. Lögreglan kom fljótlega á bílum og tók mennina í sína vörslu.

Þeir eru vistaðir í fangaklefa og verða yfirheyrðir þegar víman rennur af þeim.

Málið er í rannsókn og getur lögreglan ekki staðfest einstök atriði. Hún segir hins vegar að mennirnir hafi greinilega verið undir miklum áhrifum áfengis og vímuefna og var tekið blóð úr þeim til að rannsaka það nánar.

Þá segir lögreglumaður að annar maðurinn sé dæmdur ofbeldismaður og talinn hættulegur. Þeir hafi þó verið óvopnaðir og ekki veitt mótspyrnu.

Bíllinn sem mennirnir stálu er mikið skemmdur, jafnvel talinn ónýtur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert