Alþingismennirnir Tryggvi Þór Herbertsson, Jón Gunnarsson og Gunnar Bragi Sveinsson hafa óskað eftir fundi í iðnaðarnefnd þar sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra útskýri mál sitt vegna Magma.
Alþingismennirnir sendu Kristjáni L. Möller, formanni iðnaðarnefndar, svohljóðandi bréf:
„Í tilefni af frétt í Morgunblaðinu í morgun um að hæstvirtur fjármálaráðherra hafi ástundað einhverskonar baktjaldamakk í tengslum við Magma-málið svokallaða óskum við undirritaðir eftir fundi í hæstvirtri iðnaðarnefnd þar sem fjármálaráðherra útskýrir mál sitt. Jafnframt óskum við eftir að fá aðgang að þeim gögnum sem rætt er um í fréttinni.
Þá teljum við æskilegt að ráðuneytisstjórar sem voru starfandi á þeim tíma í iðnaðar- og fjármálaráðuneyti komi einnig fyrir nefndina.“