Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann um fjögurleytið í nótt eftir að hafa mælt hann á 140 km hraða á Sæbraut, skammt frá Aktu taktu í miðborginni. Leyfilegur hámarkshraði á þessum stað er 60 km. Reyndist ökumaðurinn vera undir áhrifum áfengis, ávana- og fíkniefna og sviptur ökuréttindum.
Hefur maðurinn margoft verið tekinn af lögreglunni fyrir ofsaakstur undir áhrifum undanfarnar vikur og ákvað lögregla í nótt að taka af honum ökutækið í þeirri von að geta komið í veg fyrir að þetta endurtaki sig á næstunni. Gistir hann nú fangageymslur lögreglunnar þar sem hann sefur úr sér vímuna.
Alls komu þrjú fíkniefnamál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt en lögreglan sinnti á sjöunda tug útkalla.